Öryggismál að banna hjólreiðar í Vaðlaheiðargöngum

Vaðlaheiðargöng.
Vaðlaheiðargöng.

Töluverðar umræður hafa verið um hjólreiðar í Vaðlaheiðargöngum undanfarna daga en ekki er leyfilegt að hjóla í gegnum göngin. Vaðlaheiðargöng og Hvalfjarðargöng eru einu göngin á landinu sem banna hjólreiðar. Oddur Helgi Halldórsson, fyrrum bæjarfulltrúi á Akureyri og baráttumaður fyrir Vaðlaheiðargöngum á sínum tíma, vakti athygli á málinu er hann skrifaði grein í blaðið nýverið þar sem hann gagnrýndi mjög að ekki sé leyfilegt að hjóla í gegnum göngin.

Spurður út í málið segir Valgeir Bergmann Magnússon framkvæmdastjóri Vaðlaheiðarganga að þetta snúist aðallega snúast um öryggismál. „Göngin eru hönnuð fyrir ökutæki en ekki göngu og hjólreiðar. Þetta er fyrst og fremst öryggismál fyrir þá sem nota göngin og ekki síður fyrir þá sem eru hjólandi og geta ekki haldið meðalhraða sem er um70 km/klst í gegnum göngin,“ segir Valgeir í samtali við Vikublaðið.

Umferðarþunginn mun meiri en í öðrum göngum

Valgeir tekur það fram að umferðaþungi í Vaðlaheiðargöngum sé þrefalt meiri en t.d. Héðinsfjarðargöng og Norðfjarðargöng. „Ef Vaðlaheiðargöng hefðu verið hönnuð með það í huga að leyfa einnig hjóla- og gangandi umferð í gegnum þau samhliða bílaumferð hefðu þau verið hönnuð öðruvísi og kostnaður verið mun meiri. Göngin hefðu þurft að vera breiðari og með vegrið á milli, lýsing hefði þurft að vera meiri, kröfu til loftgæða meiri sem leiðir til fleiri mengunarnema og fleiri blásara því það er alls ekki heilsusamlegt að anda að sér loftinu í göngunum.“

Greiða fyrir styttri og öruggari leið

Valgeir bendir einnig á að göngin séu gjaldskyld og ökumenn borgi fyrir styttri, fljótlegri og öruggari leið. „Þú færð alls ekki meira öryggi sem ökumaður ef hjólreiðar yrðu leyfðar og sömuleiðis myndi þetta skapa hættu fyrir hjólreiðarfólk. Hjólreiðar auka hættuna á framúrakstri í göngunum og sem getur leitt af sér alvarlega slys ef bílar úr gagnstæðri átt mætast inn í göngum. Ólíkt mörgum öðrum göngum sem ekki bjóða upp á aðrar leiðir bendir Valgeir á að það sé til fleiri leiðir, t.d. Víkurskarðið eða gamla leiðin yfir heiðina sem býður upp á stórkostlegt útsýni í góðu veðri. Vegagerðin og lögreglan hefðu líklega aldrei samþykkt að banna hjólreiðar nema aðrar leiðir væru í boði.“ Valgeir tekur skýrt fram að hann skilji það sjónarmið að leyfa hjólreiðar í göngunum og að umræðan eigi sannarlega rétt á sér. „En ég sé ekki fyrir mér að það hjólreiðar verði leyfðar í göngunum.“

Nýjast