Opnar stöðvalausa leigu á rafhlaupahjólum á Akureyri

Axel segist bjartsýnn á að rafhlaupahjólin verði vinsæl á Akureyri og segir jafnframt að bæjarbúar þ…
Axel segist bjartsýnn á að rafhlaupahjólin verði vinsæl á Akureyri og segir jafnframt að bæjarbúar þurfi ekki að óttast að fara upp brekkurnar á hjólunum; þau verði nægilega öflug. Mynd/Hörður Geirsson.

Axel Albert Jensen vinnur að því í samstarfi við Hopp í Reykjavík og Akureyrarbæ að koma upp rafskútuleigu á Akureyri næsta vor. Um er að ræða stöðvalausa hjólaleigu og munu gilda sömu reglur og í Reykjavík þar sem nokkur reynsla er komin á slíka starfsemi undir merkjum Hopp.

Mikil aukning hefur orðið á stöðvalausum rafhlaupahjólum í evrópskum borgum undanfarið sem umhverfisvænn kostur til að fara styttri leiðir og hafa rafskúturnar verið að ryðja sér til rúms hér á landi. „Við finnum fyrir áhuga á þessu og erum að gera ráð fyrir opnun í byrjun apríl á næsta ári en það fer auðvitað allt eftir tíðarfari.,“ segir Axel í samtali við Vikublaðið. Byrjað verður á 60 hjólum til leigu. „Svo getum við bætt við hjólum ef svo ber undir.“

Umhverfisvænt og drífur upp brekkurnar

Axel segist hafa fengið hugmyndina ásamt félaga sínum fyrir ekki margt löngu um að koma upp stöðvalausri leigu hér fyrir norðan þar sem um umhverfisvænan samgöngumáta er að ræða. Hann segist bjartsýnn á að rafhlaupahjólin verði vinsæl á Akureyri og segir jafnframt að bæjarbúar þurfi ekki að óttast að fara upp brekkurnar á hjólunum; þau verði nægilega öflug.

Axel Albert Jensen

 

„Ég held að þetta eigi eftir að slá í gegn og trúi ekki öðru. Hér eru stuttar vegalengdir og þetta er því alveg sniðið fyrir fólk sem getur t.d. notað þetta til og frá vinnu eða til að komast á milli staða á ódýran og umhverfisvænan máta.“ Margir spyrja sig eflaust hvernig rafhlaupahjólin munu virka í brekkunum í bænum en Axel segir hjólin standast vel það álag. „Við fengum hjól til að prufa brekkurnar og það virkaði mjög vel. Rafhlaupahjólin sem við fáum verða af nýrri kynslóð með meiri drægni og öflugri fyrir brekkurnar hér á Akureyri.“

Ódýr valkostur

Um ódýran valkost verður að ræða en startgjaldið verður 100 krónur og svo 30 kr. hver mínúta. „Ef þú þarft að skjótast eitthvað af hjólinu, t.d. inni í bakarí eða búð, geturðu stöðvað tækið, haldið því fráteknu og þá er biðtíminn 20 kr. hver mínúta,“ segir Axel. Hægt verður að ná í app í símann til að virkja leiguna og einnig verður hægt að sjá laus hjól í nágrenninu í gegnum appið og taka hjól frá. „Þá hefurðu korter til að komast að hjólinu. Sama kerfi og er í Reykjavík verður á Akureyri, Þannig að þetta verður mjög þægilegt.“

Rafhlaupahjól njóta vaxandi vinsælda

Axel segir að höfðað verði til samvisku fólks þegar kemur að því að ganga vel um rafhjólin. „En ef það verða einhverjir sem ganga illa um þetta og skilja hjólin t.d. eftir í görðum eða slíkt þá verðum við með þjónustubíl sem kippir því strax í liðinn. Þannig að það verður fullt eftirlit með þessu,“ segir Axel.

Nýjast