Opnað hefur verið fyrir umsóknir í Verðandi
Á dögunum var endurnýjað samkomulag um rekstur og framlög til listsjóðsins Verðandi.
Samkomulagið undirrituðu þau Ásthildur Sturludóttir, bæjarstjóri á Akureyri, Þórleifur Stefán Björnsson, formaður stjórnar Menningarfélagsins Hofs, og Þuríður Helga Kristjánsdóttir, framkvæmdastjóri Menningarfélags Akureyrar. Undirritunin fór fram í Menningarhúsinu Hofi.
Nú hefur verið opnað fyrir umsóknir í listsjóðinn fyrir starfsárið 2022-2023.
Hægt er að sækja um fyrir listaviðburðum af ólíku tagi. Til að mynda dans, tónleikum, gjörningum, ljóðaslammi, leiklist og fleira.
Sjóðurinn veitir styrki til kostnaðar vegna afnota af salarkynnum, tæknibúnaði og tækniþjónustu ásamt auglýsingu í ljósakassa.
Megintilgangur sjóðsins er að styrkja listafólk til að nýta Menningarhúsið Hof sem vettvang fyrir listsköpun sína. Listsjóðurinn á að auðvelda ungu listafólki og þeim sem starfa utan stofnana að nýta sér þá fyrirmyndaraðstöðu sem Hof hefur upp á að bjóða, stuðla að fjölbreytileika í listviðburðum í húsakynnunum og nýta þá möguleika sem þar eru fyrir fjölbreytta viðburði.
Umsóknarfrestur er til 5. maí. 2022.