Ólöf Björk Sigurðardóttir formaður íshokkídeildar Skautafélags Akureyrar í nær 20 ár

Ólöf Björk Sigurðardóttir og Viðar Garðarsson í stjórn Íshokkísambandsins
Ólöf Björk Sigurðardóttir og Viðar Garðarsson í stjórn Íshokkísambandsins

„Ég átti alls ekki von á þessu þannig að þetta kom ánægjulega á óvart,“ segir Ólöf Björk Sigurðardóttir formaður íshokkídeildar Skautafélags Akureyrar sem fékk afhent gullmerki ÍSÍ fyrir sjálfboðaliðastörf í íþróttahreyfingunni. Hún er nú að hefja sitt tuttugasta tímabil sem formaður deildarinnar, tók við árið 2004, en hafði setið í stjórn nokkur ár þar á undan. „Ég er auðvitað virkileg ánægð með þessa viðurkenningu og það er gaman þegar tekið er eftir því góða starfi sem unnið er af sjálfboðaliðum í íþróttahreyfingunni.“ Fjögur af fimm börnum Ólafar hafa látið til sín  taka í íshokkídeildinni.

 Ólöf segir að hún hafi fyrst komið inn í starf Skautafélags Akureyrar árið 2001, en það ár byrjaði einn af sonum hennar að æfa íshokkí. „Ég hafði verið að leita að íþrótt fyrir hann og það endaði á því að við fundum hokkíið, honum líkaði vel og ég fór strax að starfa með foreldrafélaginu en vinkona mín var þar einnig..  Það leið ekki langur tími þar til ég var líka komin í stjórn íshokkídeildarinnar. Skemmst er frá því að segja að ég hef verið í stjórninni síðan, þar af síðustu 19 ára sem formaður.“ Ólöf var fyrst kvenna til að setjast í stjórn íhokkídeildar hér á landi og segir að sér hafi verið vel tekið frá upphafi.

Til marks um langan tíma í brúnni segir hún að hún muni marga þá stráka sem nú spila með meistaraflokki sem smápolla að stíga sín fyrstu skref. „Það hefur verið gaman að fylgjast með þeim vaxa og dafna og verða betri og betri.“

Hún segir að vissulega sé starf formanns af og til annasamt og í mörg horn að líta. Mikið hafi í áranna rás breyst, m.a. hefur iðkendum fjölgað en nú eru um 280 manns á öllum aldri sem æfa hokkí. „Barnastarfið er mjög blómlegt hjá Skautafélagi Akureyrar, hefur verið það um árabil og er  mjög mikilvægt, það leggur grunninn að framtíðinni,“ segir Ólöf.

Öflugt barnastarf er dýrmætt

Þjálfarinn Sara Smiley eigi þar stóran þátt, en hún hefur alla tíð lagt áherslu á öflugt barnastarf. „Hún er algjör demantur og hefur svo sannarlega gert kraftaverk fyrir SA. Sara kom frá Kanada fyrir 17 árum og ætlaði að vera hér á landi í eitt ár, þjálfa á Akureyri og þetta átti bara að vera skemmtilegt ævintýri,“ segir Ólöf um þjálfaranna, en hún er nú gift þriggja barna móðir á Akureyri og ekki á förum.  „Hún hefur svo sannarlega skilið eftir sig góð og fallegt spor í sögu Skautafélags Akureyrar.“

Félagið bjóði líka öllum börnum í fyrsta til fjórða bekk á skauta á haustin og það hafi líka skilað góðum árangri, því sú skautaferð hafi kveikt neistann hjá mörgum börnum sem síðar hafi byrjað að æfa.

Ólöf segir að miklu skipti um hversu vel hefur gengið með reksturinn  að samvinna á milli deilda skautafélagsins sé mjög góð. „Það er verið að æfa aðrar greinar líka en við höfum náð að finna góða fleti á málum og það sem stendur upp úr er góð samvinna allra deildanna og líka það að allir eru boðnir og búnir að aðstoða þegar á þarf að halda.“

Búið að ryðja brautina

Kvennadeildin var á fyrstu árum Ólafar lítil, þær voru fáar og frekar á brattann að sækja t.d. með að fá æfingatíma og þjálfa, en sjálfsagt þótti að strákarnir hefðu betri ístíma og fleiri og meira lagt upp úr að ráða góða þjálfara fyrir þá. „Sem betur fer er staðan önnur núna og konurnar hafa sýnt hvað í þeim býr,“ segir hún. Öll mismunun heyri því sögunni til, bæði karla- og kvennalið fái jafnmarga tíma á ísnum til æfinga og skipti með sér síðustu tímunum sem þykja lakastir. Eins sé jafnmikil áhersla lögð á að ráða góða þjálfara fyrir stelpur og stráka. „Það má segja að þessi áfangi sem við höfum náð standi upp úr á þessum árum sem liðin eru frá því ég byrjaði að vasast í þessu, við höfum náð að ryðja þessa braut og það skiptir miklu máli,“ segir Ólöf.

Hún hefur aldrei spilað íshokkí sjálf, en hefur unun af því að horfa á leiki. Hraðinn og spennan gera áhorfið svo skemmtilegt segir hún og bætir við að hún dáist að þeim sem leggja á sig að spila hokkí.  Það sé mjög líkamlega erfitt og krefjist mikils af iðkendum eigi árangur að nást enda íþróttinn erfið.

Ólöf nefnir að SA hafi tvívegis haldið HM kvenna á Akureyri og þau mót standi upp úr þegar litið er yfir ferilinn. Fyrra mótið var mikil áskorun, aldrei hafði svo stórt mót verið haldið norðan heiða og því í mörg horn að líta en þegar upp var staðið gekk allt vel, „og við lærðum alveg heilmikið sem kom til góða þegar næsta mót var haldið. Ég er stolt af klúbbnum og þeim sem starfa með honum.“

Nú standa yfir framkvæmdir í Skautahöllinni og segist Ólöf vona að þeim verði lokið síðsumars. „Þetta eru langþráðar framkvæmdir, draumur að rætast fyrir allt skautafólk, en aðstaða batnar til mikilla muna. Við hlökkum til að byrja aftur í haust,“ segir hún.

Nýjast