20. nóvember - 27. nóvember - Tbl 47
Olís með áform um þjónustustöð við Sjafnargötu
Hagar ehf. hafa sent inn fyrirspurn varðandi fyrirhugaða þjónustustöð Olís við Sjafnargötu 2 á Akureyri. Snýst fyrirspurnin um hvort lúguverslun og aðrein að henni rúmist innan gildandi skipulags lóðarinnar.
Skipulagsráð fjallaði um málið á fundi nýverið og telur að fyrirhuguð byggingaframkvæmd á lóðinni falli undir gildandi aðalskipulag. Skipulagsfulltrúa var falið að leita umsagnar Vegagerðar varðandi aðrein að lúgunni og einnig vegna fánastanga.
Pétur Ingi Haraldsson skipulagsfulltrúi segir að breyting sem samþykkt var á deiliskipulagi á síðasta fundi nefndarinnar hafi falist í stækkun lóðar til suðurs svo hægt væri að koma yfir nýju þjónustu-, vöru- og skrifstofuhúsnæði. Ekki sé búið að veita byggingarleyfi fyrir starfseminni.