30. október - 6. nóember - Tbl 44
Ófremdarástand á leigumarkaði á Akureyri
Algert ófremdarástand ríkir á leigumarkaði á Akureyri um þessar. Mikil eftirspurn er eftir íbúðum en framboðið lítið sem leiðir til þess að verð hefur hækkað umtalsvert að undanförnu. Fasteignasalar fá fjölda fyrirspurna frá fólki og einnig opinberum aðilum, ríki og bæ sem leita eftir íbúðum m.a. fyrir flóttafólk.
Arnar Birgisson hjá Eignaver segir ýmsar ástæður fyrir því að staðan á leigumarkaði sé erfið. Ein sé að erlent starfsfólk komi í hópum í bæinn til að vinna við ferðaþjónustu nú í sumar og leiti að herbergjum og litlum íbúðum, það skapi ákveðinn þrýsting á markaðinn. Í kóvidfaraldrinum voru margar íbúðir teknar út úr Air bnb kerfinu en þær séu nú aftur komnar þangað inn og í kjölfarið minnki framboð talsvert. „Staðan er sú að eftirspurn eftir húsnæði er mjög mikil en framboðið lítið og í samræmi við eðli markaðarins hækkar verðið og það er einmitt það sem er að gerast núna,“ segir hann. „Það er mikill skortur á íbúðum og í raun má segja að ástandið sé skelfilegt.“
Arnar segir að þeir sem mögulega geti keypt eignir reyni það, en háir vextir gerir mörgum erfitt fyrir. „Fólk sem vill kaupa er margt hvert neytt inn á leigumarkaðinn, háir vextir og hertar reglur gera það að verkum. Það er kerfisvilla í gangi, ástandið lagast ekki fyrr en við hendum okkar verðtryggðu krónu út í hafsauga,“ segir hann.
Sjaldnast jafnvægi á leigumarkaði
Arnar Guðmundsson hjá Fasteignasölu Akureyrar segir að sjaldnast sé jafnvægi á leigumarkaði, eftirspurn sé mismikil sem og framboð á eignum. Nú sé staðan sú að eftirspurn sé mjög mikil eftir leiguhúsnæði en framboð sé lítið. „Það er endalaust verið að leita til okkar og spyrjast fyrir um hugsanlegar íbúðir til leigu,“ segir hann. „Því miður er staðan sú að það er nánast ekkert til.“
Arnar segir að ásókn á leigumarkað hangi að hluta til saman við ástandið á fasteignamarkaði, en flestum þykir lítið spennandi að taka lán nú um stundir þegar vextir eru mjög háir. Erfiðara sé en áður að komast í gegnum greiðslumat, margir hreinlega komist ekki þar í gegn og neyðist því út á leigumarkað.
Fjöldi íbúða er í byggingu á Akureyri um þessar mundir og kemur hluti þeirra inn á markaðinn næsta haust en flestar síðar, á næsta og þar næsta ári og leysa því ekki þann húsnæðisvanda sem við er að eiga.
Höfum fengið það sem við þurfum
Karólína Gunnarsdóttir starfandi sviðsstjóri á Velferðarsviði Akureyarbæjar segir að sviðið hafi verið að leit að húsnæði fyrir flóttafólk undanfarna mánuði og sú leit standi enn yfir. Ekki sé um að ræða margar íbúðir á hverjum tíma. „Húsnæðismarkaðurinn er erfiður á Akureyri núna, en við höfum fengið það sem við erum í þörf fyrir í flestum tilfellum.”