Of kostnaðarsamt þykir að tengja strætóferðir við Akureyrarflugvöll
Ekki er gert ráð fyrir því að strætó gangi frá flugvellinum í nýju leiðarkerfi strætó hjá Akureyrarbæ sem nýlega var kynnt og fjallað var um í síðasta blaði, en lengi hefur verið kallað eftir því að tengja leiðarkerfi strætisvagna við flugvöllinn. Halla Björk Reynisdóttir, forseti bæjarstjórnar á Akureyri, segir í samtali við Vikublaðið að of kostnaðarsamt sé að tengja strætóleiðarkerfið við flugvöllinn.
„Þegar við lögðum af stað í þessa vinnu var ákveðið að auka ekki við fjármagnið, heldur að reyna að bæta þjónustuna við íbúa og gera þannig betur fyrir sama pening. Ef flugvöllurinn yrði settur inn í leiðarkerfið myndi það kosta u.þ.b. 35 milljónir aukalega á ári, fyrir utan að festa þyrfti kaup á nýjum strætisvagni,“ segir Halla Björk.
Samgönguleysið gagnrýnt
Skortur á almenningssamgöngum til og frá flugvellinum hefur reglulega komið í umræðuna undanfarin ár og ekki síst eftir að millilandaflug fór að aukast. Þannig gagnrýndi stöðvarstjóri Akureyrarflugvallar að ekki séu betri almenningssamgöngur en raun er, en eins og staðan er í dag eiga farþegar einungis kost á því að taka leigubíl. Þá hefur Markaðsstofa Norðurlands fengið fyrirspurnir frá erlendum flugfélögum varðandi samgöngur frá Akureyrarflugvelli sem hafi áhyggjur af því hvernig farþegar komist frá vellinum. Einnig sendi forstjóri Air Iceland Connect bréf til bæjaryfirvalda á Akureyri á sínum tíma þar sem samgöngur frá flug vellinum voru gagnrýndar og sagðar ábótavant.
Halla Björk Reynisdóttir
Sama hafa íslenskar ferðaskrifstofur gert og lýst áhyggjum sínum með að ekki séu reglulegar almenningssamgöngur við flugvöllinn. Þær benda á að skortur á samgöngum geta haft neikvæð áhrif á eflingu á ferðaþjónustu á svæðinu.
Ekki forsvaranlegt á þessum tímapunkti
Spurð hvort ekki skjóti skökku við að þegar unnið sé að því að efla hér millilandaflug sé ekki boðið upp á almenningssamgöngur milli flugvallarins og miðbæjarins segir Halla Björk svo ekki vera. „
Til langrar framtíðar þarf að huga að al menningssamgöngum inn á flugvöll en við erum ekki komin þangað í dag. Mikill meirihluti þeirra sem hingað koma með milli landaflugi hafa annaðhvort tekið bílaleigubíl eða farið upp í rútu á næsta áfangastað. Mitt mat er því að með takmörkuðu fjármagni sveitarfélagsins sé ekki forsvaranlegt að nýta fjármuni í þjónustu þessa enn sem komið er,“ segir Halla Björk.