Oddfellow á Akureyri styrkir Velferðarsjóð Eyjafjarðarðarsvæðisins um 4,2 milljónir króna

Afhending styrksins fór fram í Oddfellowhúsinu á Akureyri. Frá vinstri: Karl Eskil Pálsson, Pia Maud…
Afhending styrksins fór fram í Oddfellowhúsinu á Akureyri. Frá vinstri: Karl Eskil Pálsson, Pia Maud Petersen, Hugrún Marta Magnúsdóttir, Finnur Víkingsson, Jóhanna Hlín Ragnarsdóttir, Herdís Helgadóttir formaður stjórnar Velferðarsjóðs Eyjafjarðarsvæðisins, Helga Björg Jónasardóttir, Elías Örn Óskarsson. Mynd Aðsend

Oddfellowstúkurnar á Akureyri hafa afhent Velferðarsjóði Eyjafjarðarsvæðisins samtals 4,2 milljónir króna. Fimm Oddfellow-regludeildir eru starfandi á Akureyri og í þeim eru samtals um fimm hundruð manns.

Regludeildirnar hafa mörg undanfarin ár styrkt Velferðarsjóðinn og fyrirrennara hans með myndarlegum hætti.

Vinátta, kærleikur og sannleikur

„Við Oddfellowar erum þakklát Velferðarsjóðnum fyrir þarft samfélagsverkefni, ekki síst nú í aðdraganda jólanna. Einkunnarorð okkar eru vinátta, kærleikur og sannleikur. Þessi einkunnarorð falla einstaklega vel að starfsemi Velferðarsjóðsins á margan hátt.

Með vináttunni vinnum við stöðugt að því að rækta okkur sjálf, með kærleikann að leiðarljósi vinnum við að velferð í samfélaginu og með sannleikanum skapast traust á milli fólks. Velferðarsjóðurinn hefur sannað gildi sitt og við í Oddfellow viljum leggja góðu samfélagslegu verkefni lið,“ segir Helga Björg Jónasardóttir yfirmeistari Rebekkustúkunnar nr.16 Laufeyjar.

Framlögin fara óskipt til heimila sem þurfa hjálp

Styrkurinn var afhentur í Regluheimili Oddfellow við Sjafnarstíg á Akureyri. Herdís Helgadóttir, starfsmaður Hjálpræðishersins, veitti styrknum viðtöku en hún er formaður stjórnar Velferðarsjóðs Eyjafjarðarsvæðisins.

„Oddfellowar hafa lengi stutt okkur og fyrir það erum við þakklát. Þessi stuðningur fer óskiptur til heimila sem þurfa hjálp, eins og öll önnur framlög,“ segir Herdís Helgadóttir.

Nýjast