Nýtt og betra Listasafn verður opnað á Akureyrarvöku
Formleg vígsla og opnun stórbættra og aukinna salarkynna Listasafnsins á Akureyri fer fram á Akureyrarvöku 24.-25. ágúst næstkomandi. Þá sömu helgi verður 25 ára afmæli safnsins fagnað og fjórum dögum síðar á Akureyrarkaupstaður 156 ára afmæli.
Blásið verður til mikillar listahátíðar með opnun 6 nýrra sýninga í sölum safnsins, auk þess sem nýtt kaffihús og safnbúð taka til starfa. Áður hafði þess verið vænst að hægt yrði að opna ný húsakynni safnsins í Listagilinu um miðjan júní eða á þjóðhátíðardegi Íslendinga 17. júní en fyrir allnokkru varð ljóst að þær væntingar gætu ekki staðist. Starfsemi safnsins heldur engu að síður áfram í sumar og mun Aníta Hirlekar opna sýninguna Bleikur og grænn í Ketilhúsinu laugardaginn 19. maí kl. 15. Sýningin verður opin alla daga kl. 10-17 í allt sumar.
Hlynur Hallsson safnstjóri Listasafnsins á Akureyri bindur vonir við að stækkun Listasafnsins verði ferðaþjónustu á Akureyri mikil lyftistöng og bæjarbúum ánægjuefni.
„Í öllum stærri borgum heims eru góð listasöfn meðal þess sem ferðamenn vilja helst heimsækja, ekki bara til að skoða nútímalist og kynnast listasögunni, heldur einnig til að njóta þess andrúmslofts sem einkennir góð listasöfn, glugga í bækur og drekka gott kaffi eða njóta annarra veitinga. Ég held að með þessum framkvæmdum komist Listasafnið á Akureyri í slíkan flokk safna og verði eitt helsta aðdráttarafl og skrautfjöður bæjarins ásamt Akureyrarkirkju, Lystigarðinum, Sundlaug Akureyrar, Hofi, Leikhúsinu, Hlíðarfjalli og Græna hattinum. Framtíð lista og menningar er því sannarlega björt á Akureyri,“ segir Hlynur Hallsson.