Nýtt gjaldkerfi á bílastæðum á Akureyri hefur virkað

Of mörg bílastæði eru miðbænum og nýting of lítil    Mynd Vikublaðið
Of mörg bílastæði eru miðbænum og nýting of lítil Mynd Vikublaðið

Bílastæði í miðbæ Akureyrar eru allt of mörg, fjöldinn er um 1.100 í allt og gróflega áætlað er nýting á aðalbílastæðum þar of lág, rétt um 50%, en ætti að vera á bilinu frá 60 til 85%. Til samanburðar er nefnt að fjöldi bílastæða í miðborg Kaupmannahafnar er 1050 og stendur til að fækka þeim um helming í ár. Þetta kemur fram í skýrslu sem lögð hefur verið fram í skipulagsráði um stýringu bílastæða á Akureyri og innleiðingu gjaldskyldu.

Gjaldskylda á bílastæðum í miðbæ Akureyrar var tekin upp í byrjun apríl í fyrra og segir í samantektinni að það hafi að mestu virkað án vandræða. Til stendur í vor að ljúka vinnu við samantekt á talningum og rýna í hvernig til hefur tekist og hvort breytinga er þörf.

Tvö gjaldsvæði eru á Akureyri, annað á 100 krónur á klukkustund, hitt 200 krónur.  Frá því gjaldskylda var tekin upp í fyrravor hefur gjaldskrá í Reykjavík tvívegis hækkað segir í skilamati og eru verð þar á bilinu 220 til 420 krónur á klukkustund.

Starfsmenn í sumarfrí yfir tekjuhæsta tímabilið

Verkefnahópur vegna innleiðingar á nýju gjaldskyldu bílastæðakerfi lagði til að bætti yrði við hálfu til einu stöðugildi við sjóðinn, að keypt yrði umhverfisvæn bifreið fyrir starfsmenn til að sinna eftirliti um allan bæ og að þjónusta og viðhald á stæðunum yrði aukin, en um árin hefur viðhald verið í lágmarki enda hafa tekjur varla staðið undir rekstri. “Í stuttu máli hefur ekkert verið gert í þessu og sjóðurinn heyrir ekki undir neitt ákveðið starf. Í sumar voru starfsmenn sjóðsins í sumarfríi á tekjuhæsta tímabilinu og hluta þess tíma voru báðir í fríi á sama tíma og má áætla að tekjumissir á þessu tímabili vegna undirmönnunar sé um 2-4 milljónir króna sem er mun hærri upphæð en kostnaður við afleysingar,”segir í samantektinni.

Vilja segja upp úreltum samningum um bílastæði

Fram kemur að fyrir hendi séu tækifæri í tekjuöflun fyrir sjóðinn, m.a. með því að manna stöðuvörslu að fullu alla árið um kring, rýna vel í notkunartöflur á fjarsvæðum þegar þær liggja fyrir, en líklegt þykir að þær séu yfir viðmiðunarmörkum. Einnig er bent á að hægt sé að segja upp eða endursemja úreldum samningu um stæði við Landsbankann. Verði endursamið um samninginn verði tekið mið af verð sem eru í gildi á fastleigusvæði við Túngötu.

Einnig er bent á að lægra gjald sé fyrir stöðubrot á Akureyri en í Reykjavík og einnig að syðra sjái Bifreiðastæðasjóður um eftirlit með gjaldskyldu á nokkrum stofnanalóðum. Á Akureyri hafi Háskólinn á Akureyri verið áhugasamur um að skoða þann möguleika með bifreiðastæðasjóði.

 

Nýjast