27. nóvember - 4. desember - Tbl 48
Nýtt gagnaver atNorth rísi á Akureyri
Forstjóri atNorth og bæjarstjórinn á Akureyri undirrituðu í dag viljayfirlýsingu um byggingu og rekstur gagnavers á Akureyri.
Samkvæmt yfirlýsingunni leigir fyrirtækið lóð til starfseminnar á skipulögðu athafnasvæði í útjaðri bæjarins, þar sem atNorth stefnir á að hefja framkvæmdir á næstu mánuðum . Verkefnið er liður í uppbyggingu græns iðnaðar á Akureyri og mun auka fjölbreytni og fjölga störfum í hátækniiðnaði á svæðinu.
Eyjólfur Magnús Kristinsson, forstjóri atNorth, segir kosti þess ótvíræða að byggja gagnaver á Akureyri. „Hér er til staðar mikil þekking, mannauður og traust fyrirtæki sem geta veitt atNorth góða þjónustu við rekstur og viðhald á tæknibúnaði í gagnaverinu. Héðan ætlum við bæði að þjóna innlendum og erlendum viðskiptavinum, en með gagnaveri á Akureyri getum við dreift betur áhættunni í rekstrinum. Vistun og vinnsla gagna fer þá fram á fleiri stöðum en áður, aðgengi að gagnatengingum úr landi verður betra og öryggismálum verður enn betur fyrir komið,” segir Eyjólfur Magnús og bætir við að góðar flugsamgöngur skipti einnig sköpum, enda taki aðeins um 60 mínútur að komast frá Reykjavíkurflugvelli inn í nýtt gagnaver atNorth á Akureyri þegar verkefninu verði lokið.
Fyrirtækið rekur fyrir gagnaver í Hafnarfirði, Reykjanesbæ og í Stokkhólmi í Svíþjóð. Mikil eftirspurn er eftir þjónustunni og er hafin vinna við stækkun gagnaversins í Stokkhólmi og í Reykjanesbæ. Þá leitar fyrirtækið að staðsetningu fyrir stórt gagnaver á Norðurlöndum sem mun nýta um 50MW af raforku til starfseminnar.
Ásthildur Sturludóttir, bæjarstjóri á Akureyri, fagnar boðaðri uppbyggingu og segir hana styrkja atvinnulífið á svæðinu. „Þetta verkefni rímar vel við nýlegar innviðaframkvæmdir á Norðausturlandi sem tryggja raforkuflutning inn á svæðið. Aukið öryggi í flutningi raforku inn á Eyjafjarðarsvæðið gerir uppbyggingu af þessu tagi mögulega með öllum þeim jákvæðu samfélagsáhrifum sem fylgja,” segir Ásthildur.
Rekstur gagnavera atNorth á suðvesturhorninu hefur gengið vel og eftirspurn eftir þjónustu þeirra er mikil. Hröð tæknivæðing og stafræn þróun í atvinnulífinu, rannsóknum og gagnavistun kallar mjög á aukna gagna- og reiknigetu. atNorth hefur mætt þeirri eftirspurn erlendis með byggingu nýs gagnavers í Stokkhólmi í Svíþjóð, en jafnframt hefur fyrirtækið til skoðunar að reisa risa-gagnaver annars staðar á Norðurlöndunum. Orkuþörf þess er áætluð um 50MW og eru þreifingar um kaup á orkunni komnar nokkuð á veg.