Nýr leigusamningur um Laxdalshús undirritaður

Magnús Jón Magnússon og Jónína Björg Helgadóttir eigendur Majó ehf. og Ásthildur Sturludóttir bæjars…
Magnús Jón Magnússon og Jónína Björg Helgadóttir eigendur Majó ehf. og Ásthildur Sturludóttir bæjarstjóri fyrir utan Laxalshús fyrr á föstudagdag. Mynd: Ragnar Hólm/akureyri.is

Á föstudag undirrituðu Ásthildur Sturludóttir bæjarstjóri á Akureyri og Jónína Björg Helgadóttir myndlistarkona, fyrir hönd Majó ehf., samning til fjögurra ára um leigu á Laxdalshúsi. Þetta kemur fram í tilkynningu á vef Akureyrarbæjar.

Samningurinn gerir ráð fyrir að í húsinu verði listastarfsemi, veitingarekstur og ferðaþjónusta. Þar verður einnig vinnustofa Jónínu Bjargar sem reglulega verður opin almenningi.

Á efri hæð hússins verður gestalistamönnum boðið að vera við vinnu til skemmri tíma í senn. Ferðaþjónustan felst í sögugöngum um bæinn sem hefjast og enda við Laxdalshús og tengjast matarhefðum. Ekki er hugmyndin að reka eiginlegan veitingastað í húsinu með reglulegum opnunartíma heldur munu hópar geta bókað málsverði, einkasamkomur og námskeið.

Ásthildur Sturludóttir bæjarstjóri sagði við þetta tilefni að það væri afar ánægjulegt að áfram verði menningarleg starfsemi í Laxdalshúsi sem er elsta hús bæjarins og að það haldist skemmtilega í hendur við að Sigurhæðir vakni nú einnig aftur til lífsins með margvíslegri menningarstarfsemi og viðburðahaldi.

"Fyrir okkur er það mikill heiður að taka við þessu sögufræga húsi og við hlökkum til að hafa hér eitthvert líf í tuskunum," sagði Jónína Björg að lokinni undirritun samningsins.

Laxdalshús er friðað skv. lögum um menningarminjar og starfsemin skal að taka mið af því.

Nýjast