Nýr Jökull landaði á Húsavík
Á fimmtudag í síðustu viku landaði nýja línu- og netaskip GPG Seafood, Jökull ÞH 299, á Húsavík í fyrsta sinn. Veiðiferðin gekk vel og aflabrögð ágæt.
Jökull var smíðaður í Noregi árið 1996 og er 962 GT að stærð. Lengd hans er 44 metrar og breiddin 10 metrar.
GPG Seafood keypti skipið á síðasta ári og er skipið gert út frá Raufarhöfn.
Miklar endurbætur hafa verið gerðar á skipinu en haft er eftir Gunnlaugi Karli Hreinssyni eiganda GPG í Morgunblaðinu að á síðastliðnu ári hefur verið skipt um aðalvél og ljósavélar í skipinu og ýmislegt annað sem vélaskiptunum fylgir.
Í þessari fyrstu veiðiferð var verið að fínstilla búnað. Frystivélar eru um borð í Jökli, en fyrst í stað að minnsta kosti verður hráefnis aflað fyrir fiskvinnslu í landi.
/epe