Nýjar staðsetningar til skoðunar fyrir stórþaravinnslu
Fulltrúar á vegum Íslandsþara ehf. komu á fund byggðarráðs Norðurþings á dögunum. Fyrirtækið hyggst reisa 4-5 þúsund fermetra hús fyrir vinnslu á stórþara úr Skjálfandaflóa. Fulltrúar Íslandsþara kynntu stöðu verkefnisins fyrir ráðinu.
Vilyrði fyrir lóð
Sveitarstjórn Norðurþings samþykkti á síðasta ári að veita Íslandsþara ehf. vilyrði fyrir átta þúsund fermetra lóð við Hrísmóa eða Víðimóa rétt sunnan Húsavíkur.
Áform fyrirtækisins ganga m.a, út á að nýta Húsavíkurhöfn til löndunar á þara og til útskipunar á afurðum.
Samkvæmt heimildum Vikublaðsins hefur Íslandsþari sýnt annarri lóð áhuga, en þeirri sem vilyrði hefur fengist fyrir. Það er lóð við slökkvistöðina á Norðurgarði við Húsavíkurhöfn. Sú lóð ku henta vinnslunni betur með tilliti til aðgengis að hafnarsvæðinu.
Benóný Valur Jakobsson, varaformaður Byggðarráðs staðfestir í samtali við Vikublaðið að fyrirtækið hafi sýnt lóðinni áhuga en tekur fram að engin formleg umsókn hafi borist.
„Það má segja að lóðin á Norðurgarði sé þeirra fyrsta val ef þeir fá að ráða en það er auðvitað búið að úthluta verkefninu lóð sunnan megin við bæinn. Það hefur ekki verið formlega sótt um eitt eða neitt,“ segir Benóný.
Aðspurður hvort jákvæðni ríki meðal sveitarstjórnarfólks um að úthluta fyrirtækinu lóðinni við Norðurgarð, segir Benóný að hann treysti sér ekki til að fullyrða neitt um afstöðu annarra, en ekkert sé útilokað í þessum efnum. „Það er svo mörgum spurningum ósvarað enn þá en það er a.m.k. ekki búið að segja þvert nei. Það er allt til skoðunar en engin formleg afstaða verið gefin út.“
Áhyggjur af lyktarmengun
Ljóst er að ef Íslandsþara verður úthlutað lóð á Norðurgarði þá er vinnslan komin nálægt miðbæ Húsavíkur og annarri íbúðabyggð. Þá vakna sjálfkrafa upp spurningar um hugsanlega lyktarmengun frá vinnslunni. Benóný segir að samkvæmt upplýsingum frá fyrirtækinu verði lykt frá vinnslunni lítil sem engin, enda sé þarinn unninn ferskur við hátt hitastig.
„Þetta er eitthvað sem við munum skoða ofan í kjölinn áður en afstaða verður tekin. Það eru starfræktar svona verksmiðjur annars staðar svo það ætti að vera hægt að kanna þessa þætti,“ segir Benóný.
Snæbjörn Sigurðarson verkefnastjóri verkefnisins sagði í samtali við Vikublaðið að hann hafi verið ásamt fleiri fulltrúm Íslandsþara á fundi byggðarráðs til að kynna stöðu verkefnisins. Hann sagði að ýmislegt væri í skoðun m.a. fleiri staðsetningar en það væri of snemmt að tjá sig um það.