13.nóvember - 20.nóvember - Tbl 46
Nýbyggingar vinsælar á Akureyri
Einar Pálsson, löggiltur fasteignasali hjá Borg fasteignasölu, segir í samtali við Vikublaðið að nokkuð líflegt hafi verið á fasteignamarkaðnum á Akureyri það sem af er ári. Fjöldi eigna sem auglýstar voru til sölu á Akureyri í byrjun árs voru 438 eignir, þar af 382 í póstnúmeri 600 en staðan í dag sé allt önnur og hefur eignum sem auglýstar eru til sölu fækkað verulega eða niður í 189 eignir.
„Það sem hefur einkennt markaðinn það sem af er ári er góð sala á nýbyggingum í Naustahverfi. Vinsælustu eignirnar hafa verið nýtt fjölbýli um 80 fermetrar að stærð á verðbili 34-37 mkr. Það sem er eftirtekarvert í þessu er að meðalstærð á fjölbýli er að minnka úr 90 fermetrum að meðaltali sl. 3 ár niður í um 80 fermetra,“ segir Einar. „Hinsvegar hefur mesta hækkun íbúðarverðs verið á sérbýli í Naustahverfi og er hækkun þar nokkuð mikil. Þinglýst kaupsamningsverð á fermeter þar er komið í 452.436 kr og er það hækkun frá 400.660 kr. á fermeter sem var meðaltalið fyrir árið 2020.“ Þá segir Einar að það sé athyglisvert að frá áramótum hafi þinglýst kaupsamaningsverð fyrir fjölbýli lækkað í öllum hverfum á Akureyri fyrir utan Giljahverfið en sérbýli hækkað í öllum hverfum.
186 kaupsamningar fyrstu þrjá mánuði ársins
Fyrstu þrjá mánuði ársins 2021 hefur verið þinglýst 186 kaupsamningum á Akureyri, 43 um sérbýli og 143 um fjölbýli, sem er rétt undir meðaltali ársins 2020. Í fyrra var alls 770 kaupsamningum þinglýst á Akureyri, 218 um sérbýli og 552 sjölbýli. Einar bendir á að fólksfjölgun á Akureyri hafi verið lítil, eða fjölgun um 226 íbúa síðan í ársbyrjun 2020, en nýjum íbúðum fjölgað um 252 á sama tíma og er heildarfjöldi íbúða á Akureyri orðin 8.659 í dag, samkvæmt Þjóðskrá Íslands. Fjöldi íbúa á hverja íbúð er því 2,23 einstaklingar.
Einar Pálsson
Naustahverfið vinsælast
Spurður um vinsælasta hverfið á Akureyri segir Einar að Naustahverfið standi uppúr. Þar hefur, samkvæmt Þjóðskrá Íslands, verið þinglýst 69 kaupsamningum fyrstu þrjá mánuði ársins. Þá hafa 19 samningum verið þinglýst fyrir Neðri-Brekku, Eyrina og Innbæinn, 53 samningum á Efri- Brekkunnni, 33 samningum í Glerárhverfi og 13 samningum í Giljahverfi. Um nýja Hagahverfið segir Einar að sala fjölbýla þar hafi verið mjög góð. „Nýbyggingar virðast heilla margan kaupandann í dag þar sem flestar nýbyggingar eru viðhalds litlar og áhættan af viðbótar- og rekstrarkostnaði íbúða lítil.“
Góð sala í sveitarfélögunum í kring
Spurður um sveitarfélögin í kring eins og Hrafnagilshverfi í Eyjafjarðarasveit og Hörgársveit segir Einar að fasteignir seljist vel á báðum stöðum. „Á undanförnum árum hefur íbúum í Hörgársveit fjölgað jafnt og þétt og árinu 2020 var fjölgunin þar hlutfallslega sú mesta af öllum sveitarfélögum á Norðurlandi öllu eða 5,2% og eru íbúar nú 653. Það sem skýrir mest þá fjölgun er stækkun íbúðahverfisins í þéttbýlinu við Lónsbakka en þar hafa íbúðir verið að seljast vel,“ segir Einar. „Við Hrafnagil hafa fasteignir einnig verið að seljast vel, aðalega er um sérbýli að ræða.“