Ný verslun Húsasmiðjunnar opnar í dag á Akureyri
Í dag opna Húsamiðjan, Blómaval og Ískraft nýja verslun og þjónustumiðstöð á Akureyri við Freyjunes og mun starfsemi fyrirtækisins flytjast frá Lónsbakka og Hjalteyrargötu þar sem fyrirtækið hefur verið með starfsemi um árabil. Þetta kemur fram í tilkynningu.
Þar segir að verslunin verði nær stærri hóp viðskiptavina og verði ein glæsilegasta verslun Húsasmiðjunnar til þessa. Við hönnun og skipulag verslunarinnar var leitað til hins breska hönnunarfyrirtækis M WorldWide og var auk nýrra þjónustuþátta og uppfærslu vöruvals meðal annars lögð áhersla á upplifun í gegnum stafræna miðlun, skjái og sjónræna upplifun.
„Málningardeildin hefur verið stórbætt og við höfum veglegt sýningarými fyrir heimilistæki, gólfefni og hreinlætistæki og höfum sett upp sýningarveggi fyrir þungavöru. Verslun Blómavals verður enn stærri og glæsilegri og timbursalan stækkar umtalsvert og verður hægt að aka beint í gegnum hana við kaup,“ segir Tinna Ólafsdóttir, framkvæmdastjóri verslunarsviðs Húsasmiðjunnar.
Hin nýja verslun er um 5.000 fermetrar af stærð. Einnig hefur rafvöruverslunin Ískraft sem er dótturfyrirtæki Húsasmiðjunnar einnig opnað sérverslun undir sama þaki.
Þú velur hvernig þú vilt versla!
Samhliða stafrænni þróun og miklum vexti í netverslun Húsasmiðjunnar og Blómavals hefur fyrirtækið horft til þess að byggja áfram upp öflugar verslanir og þjónustumiðstöðvar um land allt þar sem áhersla er lögð á góða þjónustu og sem breiðast vöruúrval í heimabyggð. „Verslunin á Akureyri er mikilvæg varða á þeirri vegferð þar sem áhersla lögð á enn betri og einstaklingsmiðaðri þjónustu. Sem dæmi um þessa nálgun er að þú hefur val um hvort þú kýst að skanna beint ofan í körfuna með sjálfsafgreiðslu í gegnum Húsasmiðjuappið eða vera í beinu sambandi við starfsfólk og fá ráðleggingar og aðstoð frá því,“ segir Tinna.