27. nóvember - 4. desember - Tbl 48
Ný skemma í byggingu til að auka framleiðslu skógarplantna
mth@vikubladid.is
„Þessa dagana er vor í lofti og veðurfar til útivinnu búið að vera einstaklega gott, enda snjólaust. Nú er allt komið á fullt við að undirbúa sumarið,“ segir Katrín Ásgrímsdóttir framkvæmdastjóri Sólskóga í Kjarnaskógi.
Hún segir kærkomið að veðurfari hafi verið hagstætt, „það verður allt svo miklu auðveldara þegar er lítill snjór. Það verður þó að segjast eins og er að við fögnum því að það hefur kólnað aðeins. Það er nefnilega þannig að langvarandi hlýindi á þessum árstíma geta valdið því að safastreymi fer af stað í plöntum, og því lengur sem hlýindin standa því meira lifna þær og verða þá gjarnan fyrir skemmdum þegar kuldaköst koma. Við höldum þó að allt sleppi til núna þó það eigi eftir að koma betur í ljós þegar að vorar í alvöru.“
Katrín segir framleiðslu sumarblóma komna á fullt skrið en einnig hefur undanfarin staðið yfir þrif á húsum til að gera þau klár fyrir sáningar skógarplantna.
Stærsta verkefnið sem unnið er að um þessar mundir er bygging skemmu og undirbúningur fyrir uppsetningu nýrra tækja sem gera kleift að auka framleiðslu skógarplantna og bæta gæði þeirra. Nú í vikunni voru menn frá Hollandi að setja upp megnið af vélunum „en síðan verður það verk klárað fyrir sumarið þegar nýtt myndavélastýrt umplöntunar vélmenni verður sett upp,“ segir Katrín.
Eftirspurn eftir skógarplöntum að aukast
„Eftirspurn eftir skógarplöntum er að aukast þessi misserin og hefur starfsfólk Sólskóga lagt sig alla fram við að mæta því,“ segir Katrín. Árið 2018 var ákveðið að stækka gróðrarstöðina vegna skógarplöntuframleiðslu. Það ár afhenti fyrirtækið 1,2 millónir skógarplantna en árið 2021 voru afhentar 4,5 milljónir plantna. „Þegar ný vélasamstæða verður komin í notkun þá ættum við að geta afhent á bilinu 7 til 8 milljónir plantna.“ Sólskógar
Mest er framleitt af birki og stafafuru, en framleiðsla á sitkagreni er þó á uppleið og verður aukningin í framleiðslunni að stórum hluta greni. Katrín segir að ekki hafi verið hægt að framleiða eins mikið lerki og æskilegt er vegna skorts á fræi, en fræuppskera í Finnlandi hefur verið mjög stopul.