Ný lánaviðmið Húsnæðis-og mannvikjastofnunar útiloka líklega bróðurpart eldri borgara frá kaupum
Áform um uppbyggingu ríflega 130 íbúða á vegum Búfestis við Þursaholt eru í uppnámi vegna nýrra lánaskilyrða Húsnæðis- og mannvirkjastofnunar, HMS. Hluta íbúðanna átti að reisa í samvinnu við Félag eldri borgara á Akureyri. Með nýjum lánaviðmiðum HMS er ljóst að bróðurpartur félagsmanna, tveir þriðju hlutar, falla ekki undir núverandi tekju- og eignamörk. Mikil óánægja er meðal félagsmanna með þetta útspil HMS. Búfesti er í biðstöðu með framkvæmdir á svæðinu og er þess freistað á HMS til að breyta nýju lánaskilyrðunum.
“Okkur þykir þetta mjög miður,” segir Karl Erlendsson formaður Félags eldri borgara á Akureyri. Unnið er að því á vegum félagsins að fá Húsnæðis- og mannvirkjastofnun til að endurskoða afstöðu sína til verkefnisins, enda segir hann að það sér grundvallaratriði að hagstæðar íbúðir séu í boði fyrir alla félagsmenn, en ekki bara suma.
Félagið hefur í góðri samvinnu við Búfesti unnið að verkefninu við Þursaholt og tekið þátt í hönnun íbúðanna með sérstöku tilliti til þarfa eldra fólks. Búfesti er óhagnaðardrifið húsnæðissamvinnufélaga sem á og rekur um 260 íbúðir á Akureyri og Húsavík. Hefur búsetum verið gert mögulegt að eiga 10 til 30% eignarhlut í íbúðunum.
Erum í biðstöðu
Eiríkur H. Hauksson framkvæmdastjóri Búfestis segir að svæðið við Þursaholt hafi verið girt af og fyrir hafi legið tvö hagstæð tilboð í jarðvinnu og uppsteypu kjallara húsanna. „Við erum í biðstöðu, það má segja að við förum okkur hægt á meðan unnið er úr þessu,“ segir hann, en auk hinna nýju tekju- og eignamarkaviðmiða HMS segir Eiríkur háa vexti og verðbólgu sem hér ríkir ekki beint ýta mönnum út í stór og kostnaðarsöm verkefni. „Það er eiginlega galið að takast á við svona umfangsmikið verkefnið í því árferði sem ríkir.“
Fyrst og fremst séu það þó hinar nýju reglur HMS sem setji strik í reikninginn. Fari allt á versta veg, þ.e. að reglum um tekju- og eignamörk verði ekki breytt geti í versla falli farið svo að ekkert verið úr byggingaáformum.
Eiríkur segir að Búfesti hafi yfir að ráða nokkrum lóðum, húsum frá númer 2 og upp í 10. Húsin eru fjögurra hæða og verða í allt ríflega 130 íbúðir á svæðinu. Til að byrja með var gert ráð fyrir að tvö þeirri yrðu eyrnamerkt fólki 60 ára og eldra en mikil eftirspurn frá þeim hópi hafi leitt til þess að líklega verði fleiri hús tekin frá fyrir þann aldurshóp. Íbúðirnar séu hannaðar með eldra fólk í huga, t.d. þannig að auðvelt verði að veita þjónustu heima, m.a. heimahjúkrun. Sem dæmi séu baðherbergi rúmgóð. Þá verður samkomusalur fyrir íbúanna á svæðinu þar sem þeir geta hist, spjallað og fengið sér kaffisopa.
Hvergi stefna að byggja stórar blokkir fyrir efnalítið fólk
Eiríkur og Karl nefna báðir að þessi tekjuviðmið sem útiloka stóran hluta eldri borgara frá því að kaupa búseturétt í húsunum við Þursaholt samræmist vart stefnu HMS né heldur ríkisvaldsins um að byggja fjölmennar blokkir bara fyrir láglauna- og eignalítið fólk. Það sé heldur ekki stefna Akureyrarbæjar né yfirhöfuð nokkurs. Góð blöndun fólks með mismunandi greiðslugetu í fjölbreytilegum hverfum og byggingum er að flestra mati það sem best þjónar margbreytileika íbúa þessa lands.
Stjórn EBAK hefur skorað á stofnunina og innviðaráðherra að breyta sem allra fyrst nýju lánaskilyrðum þannig að unnt sé að halda áfram við nauðsynlegar húsbyggingar Búfestis og félagsins. „Vert er að minna á að það bráðvantar húsnæði fyrir eldri borgara á Akureyri og þessi byggingaáform eru hluti af lausn á þeim vandræðum,“ segir í ályktun frá félaginu.
„Þetta er ákveðin pólitík og við vinnum í því af krafti að fá þessu hnekkt. Það er alveg gjörsamlega fáránlegt að skilgreina hópinn eldri borgarar bara út frá fjárhagsstöðu. Það er svo margt annað sem taka þarf til greina, líkamlega getu, félagslega stöðu og margt fleira. Þessi viðmið eru einnig mjög lág, þannig að sem dæmi hjón sem eigi litla íbúð í fjölbýlishúsi teljast of efnuð og er sópað út af borðinu,“ segir Eiríkur.