Ný og endurbætt kennsluálma í Lundarskóla tekin í notkun
Umfangsmiklum endurbótum á A-álmu Lundarskóla á Akureyri er að ljúka og var kennsluálman tekin í notkun í byrjun vikunnar. Fram kemur á vef Akureyrarbæjar að eftir miklar framkvæmdir, sem hafa staðið síðastliðið ár, er öll aðstaða nemenda og starfsfólks eins og best verður á kosið. Kominn var tími á endurnýjun, enda eru elstu byggingarnar frá 1974.
Þegar rakaskemmdir voru staðfestar í byrjun síðasta árs var ákveðið að flýta framkvæmdum sem höfðu verið áætlaðar 2022. Verkinu var skipt í tvo áfanga eftir byggingarhlutum og er þeim fyrri að langmestu leyti lokið. Framkvæmdir við B-álmu og tengigang eru hafnar og eru áætluð verklok í júní 2022. Markmiðið er að skólahúsnæðið þjóni starfseminni eins og best verður á kosið og uppfylli nútímakröfur með tilliti til hljóðvistar, eldvarna, loftgæða, öryggismála og tæknimála í kennslu. Samhliða endurbótum á húsnæðinu hefur verið ráðist í endurnýjun á húsgögnum og kennslubúnaði í A-álmu.
Við val og innkaup á búnaði var horft til þess að mæta áherslum í skólastarfi um fjölbreytta kennsluhætti. Fjölbreytt rými hafa verið hönnuð, m.a. lítil vinnurými sem nemendur og/eða starfsfólk getur notað til að vinna einstaklingslega, í pörum eða teymum. Stefna Lundarskóla er að viðhafa fjölbreytta kennsluhætti og nýta rými á sem fjölbreytilegastan máta fyrir skapandi skólastarf. Í vetur mun 1.-6. bekkur vera í nýju álmunni í Lundarskóla og 7.-10. bekkur í Rósenborg. Haustið 2022 mun öll starfsemi færast í Lundarskóla að nýju sem verður þá sem nýr skóli. Ný kennsluálma var tekin í notkun mánudaginn 23. ágúst.