13.nóvember - 20.nóvember - Tbl 46
Ný aðstaða fyrir Frístund og 6000 fermetra leikskóli
-
Snarpar umræður á sveitarstjórnarfundi Norðurþings
-
Færanlegar einingar leysi húsnæðisvanda Frístundar á Húsavík
-
Hugmyndir um 6000 fermetra leikskóla
-
Leikskólinn Grænuvellir fái nýtt hlutverk
„Nú virðist mér, sem íbúa á Húsavík, að málefni barna og unglinga vilji oft verða útundan hér á bæ. Aðstaða barnanna okkar í frístund að loknum grunnskóla er sprungin og hana verður að bæta, aðstaða unglinga og ungs fólks hvað varðar félagslíf er varla til staðar. Húsnæði íþróttahallarinnar hentar ekki öllum þeim greinum sem þar eru stundaðar.“ Svona hefst aðsend grein eftir Halldór Jón Gíslason sem birtist á vef Vikublaðsins um liðna helgi þar sem hann setti einnig út á lélegt ástand leikvalla á Húsavík.
Framtíðarsýn og umræður um uppbyggingu innviða á fræðslu- og tómstundasviði Norðurþings voru á fundardagskrá sveitarstjórnar Norðurþings í gær, þriðjudag.
Óhætt er að segja að mönnum hafi verið heitt í hamsi undir fundarliðnum, þá sérstaklega Hjálmari Boga Hafliðasyni, fulltrúa B-lista í minnihluta og Kristjáni Þór Magnússyni, sveitarstjóra.
Frístund í einingahús
Kristján Þór steig í pontu og kynnti tillögu með hugmyndum meirihlutans um uppbyggingu innviða á fræðslu og tómstundasviði sveitarfélagsins á Húsavík.
Hugmyndirnar ganga út á að faglegt mat verði lagt á hentugleika færanlegra eininga undir starfsemi Frístundar allt árið. „Um væri að ræða einingalausnir sem komið yrði saman innan lóðar Borgarhólsskóla svo fljótt sem verða má. Þetta verði gert með þeim hætti að samhliða umfjöllun fjölskylduráðs sem leggja skal faglegt mat á hvort í boði séu einingalausnir sem standist kröfur um starfsemi Frístundar allra barna í 1. til 4. Bekk,“ segir í tillögunni sem lesa má í heild sinni með því að smella HÉR.
Framkvæmdirnar gætu kostað 100 milljónir og yrðu fjármagnaðar með lántöku.
Tillagan var samþykkt með öllum atkvæðum nema Bergs Ágústssonar B-lista, sem sat hjá. Hann lagði fram bókun sem lesa má HÉR
Nýr og stærri leiksskóli
Lausnin var kynnt sem úrræði til 5-10 ára en að framtíðarsýn málaflokksins bæri með sér að byggja nýjan 6000 fermetra, 10 deilda leikskóla í Grundargarði.
Kristján sagði að ný aðstaða Frístundar fyrir 1.-4. bekk væri það mál sem mest lægi á að koma í betri farveg. Hann sagði jafnframt að ef hugmyndirnar fengju hljómgrunn og hægt væri að ráðast í framkvæmdir hið fyrsta þá væri hægt að koma aðstöðunni upp á næstu 6-7 mánuðum.
„Heildarsýnin snýst um að með tíð og tíma; á næstu 3-4 árum ef við höldum áfram í bjartsýnina um að hér verði áfram þokkalegur uppgangur. Að við förum að skipuleggja uppbygginu nýs leikskóla. Að hann verði byggður upp í Grundargarði, annað hvort á auðri lóð austan framhaldsskólans eða enn austar inn í óbyggðum Grundargarði,“ sagði Kristján Þór og bætti við að þannig losnaði um húsnæði leikskólans Grænuvalla. Grænuvelli væri þá hægt að nýta undir aðra starfsemi s.s. Tónlistarskóla Húsavíkur, frístund,- og tómstundastarf, en tók fram að þetta væru bara hugmyndir til umræðu.
„Þetta er grunnstefið í þessum hrókeringum sem vissulega eru hrásoðnar hérna fram til umræðu og gagnrýni. Það væri hægt að koma slíkri aðstöðu upp á næstu 6-7 mánuðum en það krefst auðvitað meiri yfirlegu. Hvort það sé ásættanlegt að setja upp úrræði sem þetta til næstu 5-10 ára.“
Dapur yfir vinnubrögðum meirihlutans
Hjálmar Bogi tók þá til máls og var eins og áður sagði heitt í hamsi. Hann fann vinnubrögðum meirihlutans allt til foráttu, sagðist dapur yfir þeim og sakaði meirihlutann og sveitarstjóra sérstaklega um yfirgang, hroka og hræsni. Hjálmar Bogi benti á að minnihlutinn hafi lagt fram tillögu í febrúar 2019 um að sveitarfélagið Norðurþing hefji nú þegar undirbúning að uppbyggingu félagsmiðstöðvar og ungmennahúss á Húsavík. Aðra samskonar tillögu í apríl sama ár, þá þriðju í september 2020, allar samþykktar samhljóða en síðan hafi ekkert gerst, fyrr en nú. Hjálmari var mjög í mun að fá að vita hvers vegna meirihlutinn kæmi með þessa tillögu fyrst núna.
„Hér er samstarfi í sveitarstjórn best lýst og kristallast hversu verkstjórn í sveitarfélaginu er ábótavant. Frá ársbyrjun 2019 hafa fulltrúar minnihlutans lagt fram tillögur varðandi úrbætur og mótað‘ framtíðarsýn; alltaf samþykkt samhljóða,“ sagði Hjálmar Bogi og sakaði meirihlutann um óvirðingu við störf minnihlutans og við stjórnsýslu sveitarfélagsins. Hann þakkaði svo nýjum forseta sveitarstjórnar; Aldey Unnar/Traustadóttur fyrir að koma ný inn, vekja meirihlutann af þyrnirósarsvefni og ýta málinu af stað.
„Af hverju hefur bara ekkert gerst, þegar sveitarstjóri ætlar allt í einu núna að sparka málinu af stað. Af hverju hefur ekkert gerst? Af því það hentar meirihlutanum núna að fara af stað? Hann ætlar allt í einu núna að fara hugsa um börnin. Mér finnst ótrúlegt að núna á haustdögum 2021 megi fara sparka í gang hugmyndum sem voru lagðar fram í upphafi árs 2019,“ sagði Hjálmar Bogi.
Sýnilega pirraður sveitarstjóri
Sveitarstjóri steig aftur í pontu, var sýnilega pirraður og spurði hvaða efnislegu lausnir minnihlutinn hefði lagt fram. „Þetta ergelsi er náttúrlega með öllum… Þannig er náttúrlega… maður nennir þessu ekki mikið lengur, ég verð nú bara að taka svo stórt upp í mig hérna. Hvaða lausnir er verið að bera á borð hérna hjá þeim sem stóð hér í pontu á undan mér? Engar! Það er verið að benda á eitthvað sem átti að vera búið að gera fyrir löngu. Og hvað átti að vera búið að gera fyrir löngu? Hvergi er búið að leggja saman einhverjar hugmyndir. Þetta eru hugmyndir um það sem við sjáum fyrir okkur að megi gera og byggjast hér upp á Húsavík til næstu ára. Hver er stóri skaðinn í því?,“ sagði Kristján Þór og lá hátt rómur. Hann hélt svo áfram:
„Það eru engar útfærðar hugmyndir eða heildstæð sýn á málin. Það er alltaf verið að kasta einhverjum frösum upp og svo eiga aðrir að vinna vinnuna. Aldrei lausnir! Þannig er þetta. Ég skil ekki af hverju menn eru svona reiðir yfir þessu. Þetta eru bara hugmyndir á blaði. Þetta eru bara hugmyndir einmitt til þess að reyna ná utan um hvernig sveitarstjórn getur mögulega komið sér saman; sem er náttúrlega nánast ófært vegna þess að fulltrúar minnihlutans eru nánast í öllum málum sem borin eru hér upp til framdráttar, á móti þeim. Sérstaklega sá sem að talaði hér síðast,“ sagði hann og átti þar við Hjálmar Boga.
Kristján Þór viðurkenndi að það mætti vel vera gagnrýnin á að húsnæðisvandi Frístundar hafi ekki verið leystur fyrr en benti á að framkvæmdin við einingarnar kosti 100 milljónir. „Þetta kostar 100 milljónir svo það sé sagt. Slökkviliðsbíll kostar tugi milljóna, það eru hundruð miljóna útgjöld fyrirsjáanleg hjá sveitarfélaginu og við erum að reyna gera okkar besta, öll hérna til þess að reyna leysa úr brýnum vanda út um allt sveitarfélag. Þegar maður heyrir að nú allt í einu megi fara verja fjármunum okkar í börn. Í hvað eru peningar okkar að fara? Þeir eru að fara í börn númer eitt tvö og þrjú. Inn á hvaða sviðum erum við að verja mestum fjármunum? Í þjónustu við börn.“
Tillaga meirihlutans var sem áður segir samþykkt og munu hugmyndirnar fá efnislega meðferð inn í ráðum sveitarfélagsins.
Villtu leggja þitt af mörkum til að tryggja óháða blaðamennsku í heimabyggð? Smelltu HÉR til að gerast áskrifandi.