„Núna erum við komin heim loksins“

Nýji heimavöllur KA. Mynd/GN
Nýji heimavöllur KA. Mynd/GN

Akureyrarvöllur var tekinn í notkun árið 1951 þegar frjálsíþróttamót fór fram á vellinum 17. júní.  Hann var svo formlega vígður árið 1953 og hefur síðan þá hýst kappleiki Þórs, ÍBA og síðast KA undan farinn áratug eða svo.

Siguróli

KA leika ekki meira á Akureyrarvelli þar sem félagið hefur gert sam­komu­lag við Akureyrarbæ um framtíðaruppbygginu á félagssvæði sínu við Dalsbraut.

Eins og undanfarin tvö ár byrjaði KA knattspyrnuvertíðin með því að leika sína heimaleiki á Dalvíkurvelli. „Já við byrjuðum náttúrlega á Dalvík núna í vor og erum við KA fólk þeim ævinlega þakklát fyrir gestrisnina undan farin tvö ár,“ segir Siguróli Magni Sigurðsson, íþróttafulltrúi KA.

 Söguleg stund

Það má því segja að á  fimmtudag sl. hafi verið söguleg stund í sögu félagsins og Akureyrar. Þá tók KA á móti Fram í sínum fyrsta heimaleik í Bestu deild karla á nýjum og glæsilegum heimavelli á KA svæðinu. Leiknum lauk með 2-2 jafntefli eftir að KA hafði lent tveimur mörkum undir.  Völlurinn er þó aðeins til bráðabirgða þar til framtíðarleikvangur hefur verið byggður.

„Við vorum reyndar með heimaleik í bikarnum í maí hér á KA svæðinu en stúkan var ekki komin þá,“ segir Siguróli og bætir við að Akureyrarbær hafi séð um að skipta um gervigras á vellinum. „Við fengum glænýtt gervigras í hæsta gæðaflokki sem stenst allar kröfur og staðla. Svo settum við upp úðarakerfi sem sér um að vökva fyrir okkur því það fer töluvert betur með grasið að spila á því yfirborðsblautu.“

Þá hefur verið komið upp stúku eins og Siguróli kemur inn á, sem tekur 500 manns í sæti en það er krafa frá KSÍ. „Til að toppa þetta allt saman þá eru nokkur minni en ótrúlega drjúg verkefni sem sjálfboðaliðar okkar hafa tekið að sér og við erum þeim svakalega þakklát. Það snerist um að byggja veggi austan og vestan megin við völlinn til að ramma hann betur inn. Þarna verður komið fyrir auglýsingaskiltum og aðstöðu fyrir blaðamenn og myndatökumann og slíkt,“ segir Siguróli.  

 Einstök stemning

Það er ekki laust við að KA maðurinn sé hálf klökkur við að lýsa þessu fyrir blaðamanni Vikublaðsins og það leynir sér ekki ánægjan yfir því að starfsemi félagsins sé öll að færast yfir á KA svæðið. „Núna erum við komin heim loksins. Við höfum líka fundið fyrir því vegna þessa að KA er fjölgreinafélag að þegar það eru heimaleikir í öðrum greinum þá kemur fólk labbandi úr hverfinu,“ segir Siguróli og bætir við að það skapi svo sérstaka stemningu. „Þegar við erum niðri á Akureyrarvelli þá höfum við ekki náð að upplifa nákvæmlega þá stemningu. Nú erum við hins vegar komin heim og hlakkar gríðarlega mikið til að færa alla okkar starfsemi á sama staðinn.“

Verður þá framtíðaruppbygging félagsins hugsuð út frá því að hún verði öll á KA svæðinu?

„Það er okkar ósk og okkar plan. Næsti áfangi er að byggja alvöru keppnisvöll enda er þessi hugsaður til bráðabirgða, við erum með þennan völl á undanþágu frá leyfiskerfi KSÍ þangað til nýja stúkan verður tilbúin,“ segir hann.

Kveður tregalaust

Aðspurður hvort það fylgi því einhver tregi að yfirgefa Akureyrarvöll segir Siguróli svo ekki vera.

„Ekki af minni hálfu en það er eflaust hægt að finna nokkra hjá félaginu sem finna fyrir söknuði við að yfirgefa Akureyrarvöll enda er þetta fallegasta vallarstæði landsins og sögulegur völlur að mörgu leyti. En við lítum til framtíðar og horfum til þess að hér á KA svæðinu verði okkar aðstaða í öllum greinum og hér viljum við vera þó að vissulega séu  margar góðar og slæmar minningar frá Akureyrarvelli,“ segir Siguróli og hlær.

Ekki hægt án sjálfboðaliða

Undan farin ár hefur verið talsverð umræða um að íþróttafélög og félagasamtök eigi erfiðara uppdráttar en áður með að fá sjálfboðaliða til starfa. Svo virðist þó ekki vera innan KA um þessar mundir.

„Klukkutímarnir í sjálfboðavinnu hjá fólki undanfarnar vikur og mánuði eru ofboðslega margir. Við byrjuðum 27. mars á þessu verkefni og nú er farið að sjá fyrir endann á því. Fólk er búið að leggja nótt við nýtan dag og félagið getur aldrei þakkað þeim nægilega. Þau vita hver þau eru sem eru búin að leggja hönd á plóg en það er ótrúlega margt fólk. Þetta hefði aldrei verið hægt án þessara sjálfboðaliða. Það  er búið að vinna þrekvirki hreinlega,“ segir Siguróli að lokum.

Nýjast