Barnamenningarhátíð á Akureyri haldin í áttunda sinn

Hressustu bræður landsins  VÆB bræður heimsækja Akureyri á morgun
Hressustu bræður landsins VÆB bræður heimsækja Akureyri á morgun

„Hátíðin skipar veglegan sess í menningarlífi bæjarins, enda hefur hún vaxið ár frá ári,“ segir Elísabet Ögn Jóhannsdóttir verkefnastjóri menningarmála hjá Akureyrarbæ. Barnamenningarhátíð var sett með viðhöfn í Hofi fyrr í vikunni og stendur hún svo gott sem allan aprílmánuð. Þetta er í áttunda sinn sem hátíðin er haldin.

Elísabet segir að á um 40 viðburðir séu á dagskránni og eru börn og ungmenni hvött til að taka þátt í því menningarstarfi sem í boði verður. Eitt meginmarkmið hátíðarinnar er að þátttaka sé börnum að kostnaðarlausu.

„Við viljum gefa börnum og ungmennum tækifæri til að njóta lista og menningar og með því að efna til Barnamenningarhátíðar hvetjum við þau til að taka virkan þátt í menningarstarfi af fjölbreyttu tagi. Barnamenning nær yfir vítt svið; leiklist, tónlist, kvikmyndir, sjónvarpsefni, leikföng og önnur skapandi og listræn tjáningarform sem höfða til barna eða eru sköpuð af þeim,“ segir Elísabet.

Áhersla á samverustundir fjölskyldunnar

Hún segir Barnamenningarhátíð á Akureyri taka mið af Menningarstefnu Akureyrarbæjar og aðgerðaráætlun barnvæns sveitarfélags. „Við erum oft með sérstakar áherslur á hátíðunum og í ár leggjum við áherslu á samverustundir fjölskyldunnar. Það verður því mikið úrval viðburða þar sem í boði verða skemmtilegar samverustundir fyrir fjölskylduna.“

Elísabet segir viðburði fjölbreytta og allir ættu að finna eitthvað við sitt hæfi, en sem dæmi eru í boði allra handa smiðjur, m.a. um danslistir, ullarþæfingar, ljóð, grímugerð, brúðuleikshús auk dans- og tískusýningar, það verður bíó og árlegir viðburðir eiga sinn stað í dagskráinni. Þar má nefna Myndlistarverkstæði Gilfélagsins, lokatónleika Upptaktsins og Hæfileikakeppni Akureyrar.

Sumartónar einn af hápunktum hátíðarinnar

Einn af hápunktum hátíðarinnar eru Sumartónar í Hofi þar sem VÆB-bræður heimsækja Akureyri í fyrsta sinn, en tónleikarnir verða næsta þriðjudag, 8. apríl. Stelpuhljómsveitin Skandall hitar upp fyrir bræðurna. Þá verður fjölbreytt dagskrá í Hofi á sumardaginn fyrsta auk þess sem viðburðir verða þann dag í söfnum bæjarins.

Nýjast