Norðurþing segir upp sérkjörum leikskólastarfsfólks: „Hér er verið að ráðast að kjörum starfsmanna“
Starfsfólki leikskólans Grænuvalla hefur verið sagt upp ákvæði í ráðningasamningi sem lítur að greiðslu á 11 yfirvinnutímum vegna sveigjanlegra neysluhléa. Samkvæmt upplýsingum frá Norðurþingi er gert ráð fyrir að aðgerðirnar spari sveitarfélaginu um 24 milljónir á ári.
Starfsmenn Leikskólans á Grænuvöllum komu saman til fundar í síðustu viku til að bregðast við ákvörðun Norðurþings um að segja upp fastri yfirvinnu sem starfsmenn hafa fengið fram að þessu og tengist sveigjanlegum neysluhléum á vinnutíma. Um er að ræða samkomulag sem hefur verið við líði til fjölda ára. Í samþykkt bæjarráðs 23. mars 2000 er tekið fram:
„Starfsfólk á leikskólum Húsavíkur sem matast inn á deildum með börnum í hádeginu fái greiddar 11 klst. Í yfirvinnu á mánuði miðað við að matast sé með börnum alla virka daga.“
Sjá einnig: Sveitarstjóri Norðurþings lækkar laun sín tímabundið
Skora á Norðurþing að afturkalla skerðingarnar
Fundurinn var haldinn í samstarfi við stéttarfélög starfsmanna; Framsýn, Starfsmannafélag Húsavíkur og Félag leikskólakennara. Starfsfólkið mótmælir þessari ákvörðun sveitarfélagsins og stéttarfélög þeirra hafa sent áskorun til Norðurþings um að afturkalla þessar skerðingar.
„Almennt eru starfsmenn á leikskólum, sem ekki hafa lokið formlegri menntun sem leikskólakennarar, með á bilinu 360.000 kr. til 400.000 kr. á mánuði m.v. fullt starf. Kjaraskerðingin hjá þessum hópi starfsmanna nemur góðum mánaðarlaunum á ársgrundvelli eða að jafnaði um 450.000 krónum sem er gjörsamlega óásættanlegt,“ segir í yfirlýsingunni.
Leikskólakennarar eru með mánaðarlaun frá um 500.000 kr. til 700.000 kr. m.v fullt starf eftir starfsreynslu og fjölda ECTS eininga umfram B.ed. eða sambærilegt bakklárpróf. Sé horft til allra stétta innan leikskólans er skerðingin á bilinu 420.000 kr. upp í um 700.000 kr. á ársgrundvelli, það er mismunandi eftir starfsstéttum.
Í yfirlýsingunni kemur einnig fram að uppsögnin nú á ráðningakjörum starfsmanna leiði til þess hjá hluta starfsmanna að þrátt fyrir 65.000 kr. kjarasamningsbundna hækkun um áramót sem hluta af lífskjarasamningnum, þá lækka einstaklingar í launum. „Það er óumdeilt að þessar aðgerðir leiða til kaupmáttarrýrnunar þeirra starfsmanna sem njóta þessara greiðslna. Aðgerðin er því harkaleg,“ segir í yfirlýsingunni.
Hvað er verið að gera?
Aðalsteinn Á. Baldursson formaður Framsýnar er brugðið við ákvörðun sveitarfélagsins og sagði að enn hafi engin formleg svör borist frá Norðurþingi við áskorun stéttarfélaganna þegar blaðamaður Vikublaðsins ræddi við hann á þriðjudag. „Þetta er ljótt mál. Hér er verið að ráðast að kjörum starfsmanna sem eru meira og minna konur. Við höfum óskað eftir því í bréfi til sveitarfélagsins að fá svör við því hvað sé raunverulega verið að gera. Hvort verið sé að fara í gegnum kjör allra starfsmanna sveitarfélagsins með því markmiði að skera þau niður eða er bara verið að taka fyrir ákveðna hópa innan sveitarfélagsins,“ segir Aðalsteinn.
„Hvar er minnihlutinn?“
Aðalsteinn tjáði sig um málið á Facebook þar sem hann segir að svo virðist sem sveitarstjórnin standi saman að því að ráðast að þessum starfsmönnum Norðurþings með þessum hætti og spyr svo: „Hvar er minnihlutinn?“
Bergur Elías Ágústsson fulltrúi B-lista sem er í minnihluta sveitarstjórnar svarar því til að eftir því sem hann best viti hafi ekki verið tekinn ákvörðun um þetta mál, enda væri rétt að hún yrði tekin í byggðarráði með formlegum hætti og í framhaldi rætt við starfsmenn og verkalýðsfélag þeirra um hvað er farið fram á. „Þetta vandræðamál hefur ekki verið tekið fyrir sem mál á þeim fundum sem ég hef setið,“ skrifar hann.
Byrjað á öfugum enda
„Í fyrsta lagi finnst mér ekki að við sem kjörnir fulltrúar eigum að vera hlutast til um kjaramál starfsfólks. Það er okkar að taka ákvarðanir og svo er það framkvæmdavaldsins að framkvæma sem er í þessu tilfelli sveitarstjóri,“ segir Hjálmar Bogi Hafliðason, sveitarstjórnarfulltrúi B-lista og áheyrnarfulltrúi í byggðarráði Norðurþings í samtali við Vikublaðið.
„Það er mín skoðun að ef menn ætla að fara í það að skera niður þá byrja menn efst, á sveitarstjóra, sveitarstjórn og æðstu stjórnendum sveitarfélagsins áður en farið er í svona aðgerðir,“ segir hann og bætir við að það hafi verið einhugur um það að endurskoða þetta ákvæði en að hann sé ósáttur við hvernig staðið er að því. „Aðferðarfræðin við það hvernig þetta er gert og það að byrja á lægst launaðasta starfsfólki sveitarfélagsins finnst mér léleg framkvæmd hjá sveitarstjóra, ég hefði ekki byrjað þar,“ segir Hjálmar. Hann segist velta því fyrir sér hvort ekki hefði mátt liggja fyrir formleg ákvörðun byggðarráðs áður en ráðist hafi verið í þessa aðgerð „Þetta er hvergi bókað.“
„Búið að vera yfirvofandi í mörg ár“
Sigríður Valdís Sæbjörnsdóttir, leikskólastjóri á Grænuvöllum segir í samtali við Vikublaðið að hér sé um sérkjör að ræða sem eru ekki kjarasamningsbundin.
Áður fyrr fékk starfsfólk leikskólans ekki sér matartíma heldur mataðist með börnunum. Nú fær starfsfólk hins vegar 30 mínútna matarhlé. Sigríður Valdís segir að hún hafi á sínum tíma barist fyrir því sem leikskólakennari að halda þessum sérkjörum inni en nú lítur út fyrir að það gangi ekki lengur.
Hún segir að þetta sé vissulega skerðing en að hún komi til á sama tíma og laun séu að hækka. „Við áttum alltaf von á þessu, þetta er búið að vera yfirvofandi í mörg ár,“ segir hún en bætir við að starfsfólk sé vissulega ekki sátt við þessar breytingar og bendir á að aðrir leikskólar í sveitarfélaginu séu ekki með þessi sérkjör.
Stendur ekki til að skerða kjarasamningsbundin réttindi
Kristján Þór Magnússon sveitarstjóri Norðurþings segir í samtali við Vikublaðið að þetta hafi verið rekstrartengd ákvörðun og var kynnt sem slík á byggðaráðsfundi 17. september þar sem listaðar voru upp ýmsar aðgerðir sem snúa að hagræðingu í rekstri sveitarfélagsins og honum hafi verið falið að vinna samkvæmt því minnisblaði.
„Í grunninn er hér um að ræða þessar sérgreiðslur sem lúta fyrirkomulagi sem tíðkaðist áður og átti við um greiðslu á þessum neysluhléum en það er bara ekki praktíserað með þessum hætti lengur. Eftir því sem við fáum séð er Norðurþing eina sveitarfélagið sem enn hefur ekki sagt upp þessum neysluhlésgreiðslum til samræmis við þá kjarasamninga Félags leikskólakennara sem nú eru í gildi. Þarna erum við með sérkjör sem ekki eru við lýði á sambærilegum vinnustöðum í sveitarfélaginu. Við sáum ekki fram á annað en að segja þessu upp með lögbundnum 3-5 mánaða fyrirvara,“ segir Kristján.
Aðspurður um það hvort aðhaldsaðgerðir vegna Kórónuveirufaraldursins sé ástæðan á bak við aðgerðirnar segir Kristján að fjárhagsstaða sveitarfélagsins á þessum tímum hjálpi ekki til. „Það er verið að skoða hvern krók og kima til að draga úr kostnaði sveitarfélagsins. Það hefur legið fyrir í langan tíma að gæta meira samræmis í störfum hjá sveitarfélaginu. Þarna eru 11 yfirvinnutímar þar sem ekki er útskýrt með viðunandi hætti fyrir hvað standa og því blasi við að þetta sé ákvörðun sem verði að taka.“
Kristján segir aðspurður að ekki séu stórir hópar innan sveitarfélagsins sem njóti sérkjara sem til stendur að segja upp en að það sé verið a vinna að því að draga úr allri yfirvinnu eins og kostur sé. „Heilt yfir erum við að leita allra leiða til þess að þurfa ekki að fara í stærri aðgerðir til að ná utan um reksturinn. Það gefur auga leið að við viljum komast hjá því að segja upp fólki. Við erum að sjá fram á halla á þessu ári upp á a.m.k. 250 milljónir og það er nokkuð ljóst að fjárhagsáætlun næsta árs gerir ráð fyrir umtalsverðum halla. Það er engin önnur leið en að taka til í rekstrinum og við teljum þetta vera skynsamlega leið til að horfa til." Þá tók Kristján fram að erindi Framsýnar sé til umfjöllunar á Byggðarráðsfundi sem fór fram á fimmtudag. Á fundinum var samþykkt að að fela sveitarstjóra að boða til fundar með stéttarfélögum og starfsmönnum Leikskólans Grænuvalla sem hafa mótmælt boðuðum kjaraskerðingum starfsmanna.
Í frétt á vef Vikublaðsins frá því í gær kemur fram að á þeim fundi hafi hann lagt fram tillögu um að lækka laun sín um 6 prósent frá og með 1. Janúar 2021 og gildi út allt næsta ár. Einnig var lagt fram að laun kjörinna fulltrúa lækki um sama hlutfall og að fyrirhugaðri launahækkun æðstu stjórnenda sveitarfélagsins verði seinkað um hálft ár. Samanlagt sparar Norðurþing um 7,6 milljónir á aðgerðunum.
„Það stendur ekki til svo það komi fram að skerða kjarasamningsbundin réttindi starfsfólks. Við leggjum mikið upp úr því að greiða samkvæmt kjarasamningum og það er stefna sveitarfélagsins,“ segir Kristján að lokum.