Norðurþing endurfjármagnar gamalt kúlulán

Byggðarráð Norðurþings samþykkti á dögunum að taka óverðtryggt lán til 15 ára hjá Lánasjóði sveitarfélaga til greiðslu á eldra láni sem tekið var árið 2005. Helena Eydís Ingólfsdóttir, formaður byggðarráðs sagði í samtali við Vikublaðið að lánið hafi verið tekið á sínum tíma vegna framkvæmda Hafnarsjóðs við Bökugarð. Lánið var svo kallað kúlulán sem tekið var í evrum. Slík lán voru algeng á árunum fyrir bankahrunið 2008. Endurfjármögnunarlánið er tekið af aðalsjóði Norðurþings (24%) og Hafnasjóði Norðurþings (66%).

Upphaflega lánið hljóðaði upp á eina milljón evra eða um 160 milljónir íslenskra króna miðað við gengi í dag. Lánið er með eindaga í október nk. en samkvæmt upplýsingum frá Norðurþingi ber það neikvæða vexti svo sveitarfélagið hefur ekki verið að greiða vexti af láninu. Gengissveifla hefur hins vegar verið óhagstæð vegna kóvid-19 faraldursins og situr sveitarfélagið uppi með kostnað vegna hennar. Um 20-25 milljónir króna hafa lagst á lánið frá áramótum vegna gengissveiflunar.

„Lánið er með vaxtakjörum 6 mánaða REIBOR millibankavöxtum auk 0,50% álags.
Byggðarráð vísar málinu til sveitarstjórnar,“ segir í bókun byggðarráðs sem samþykkti lántökuna og vísaði til sveitarstjórnar.

Nýjast