Norðursigling hlýtur alþjóðlega vottun fyrir ábyrga hvalaskoðun
Norðursigling hlaut á dögunum alþjóðlega vottun fyrir ábyrga hvalaskoðun frá World Cetacean Alliance. Vottunin er mikilvæg viðurkenning fyrir það mikla frumkvöðlastarf sem Norðursigling hefur unnið í þróun ábyrgrar umgengni við hvali á Skjálfandaflóa, segir í tilkynningu.
The World Cetacean Alliance (WCA), sem hafa höfuðstöðvar í Bretlandi, eru stærstu samtök sinnar tegundar í heiminum en aðalmarkmið þeirra er að vernda sjávarspendýr og umhverfi þeirra, sem og tengja saman þau samfélög sem reiða sig á hafið og miðin, rétt eins og Húsvíkingar hafa sannarlega gert í gegnum árin.
Vottun þessi er sú eina sinnar tegundar á heimsvísu, og er einungis aðgengileg þeim fyrirtækjum sem starfa eftir ítrustu kröfum er snúa að náttúruvernd, sjálfbærni og upplifun viðskiptavina.
„Það hefur verið mögnuð vegferð að fara í gegnum umsóknarferlið hjá WCA og frábært að geta uppfyllt allar þær kröfur sem á okkur voru gerðar. Jafnframt hefur þetta verið dýrmæt reynsla fyrir allt okkar starfsfólk og afar kærkomin viðurkenning fyrir þá vinnu sem við höfum lagt í þróun ábyrgrar hvalaskoðunar hér á Skjálfandaflóa“ segir Heimir Harðarson, útgerðar- og gæðastjóri Norðursiglingar.
„Við vorum afar ánægð með umsókn Norðursiglingar og þeirra nálgun og sýn á ábyrga hvalaskoðun. Þjálfunar- og fræðsluefni þeirra fyrir starfsfólk er til mikillar fyrirmyndar sem og einstakt frumkvæði að fjölbreyttum verkefnum á sviði sjálfbærni og umhverfisverndar“ segir Patice Talaue, vottunarstjóri hjá WCA.
Norðursigling hefur verið leiðandi í hópi hvalaskoðunarfyrirtækja víðs vegar um heiminn og átt stóran þátt í því að gera Skjálfandaflóa að mikilsmetnum stað til hvalaskoðunar. Með þessari alþjóðlegu vottun hefur enn eitt skrefið verið stigið í átt að ábyrgari umgengni við hvali og náttúru Skjálfandaflóa.