Norðurorka-Kjartan S. Friðriksson, 70 ára unglamb sem státaði af 54 ára starfsaldri þegar hann lét af störfum.

Erla Björg Guðmundsdóttir mannauðsstjóri Norðurorku og Kjartan S. Friðriksson
Erla Björg Guðmundsdóttir mannauðsstjóri Norðurorku og Kjartan S. Friðriksson

Heimasíða  Norðurorku segir skemmtilega sögu.

Á dögunum voru veittar starfsaldursviðurkenningar hjá Norðurorku hf. 

Það er gaman að segja frá því að almennt er starfsaldur hár í fyrirtækinu og starfsmannavelta lítil. Það voru 23 einstaklingar sem höfðu starfað í 10 ár eða lengur hjá Norðurorku þegar viðurkenningarnar voru veittar og var samanlagður starfsaldur þeirra 545 ár. Í slíkri reynslu býr mikill mannauður.

Einn þeirra sem hlaut viðurkenningu fyrir starfsaldur er Kjartan S. Friðriksson, 70 ára unglamb sem státaði af 54 ára starfsaldri þegar hann lét af störfum. Það þýðir að Kjartan vann fyrir Norðurorku, og forverum fyrirtækisins, allan sinn starfsaldur en slíkt er fágætt á vinnumarkaði nútímans.

Kjartan hóf störf hjá Vatnsveitunni 3. maí 1969, með glænýtt bílpróf. "Það voru allir í innbænum sem fengu vinnu hjá Vatnsveitunni í gamla daga. Þeir voru búnir að vera verkstjórar innan úr bæ, Gunni Sót og Rabbi" sagði Kjartan. "Ég byrjaði á skóflunni og var þar í tvær vikur þangað til ég var settur á gröfu. Ég var dálítið lengi á gröfunni, alveg til ´78 en þá tók ég við vörubíl og var þar alltaf eftir það"

Aðspurður um hvers vegna hann hefði unnið svona lengi hjá Norðurorku sagði Kjartan að honum hefði einfaldlega alltaf líkað vel "og svo urðu alltaf einhverjar breytingar. Frá því að vera í Vatnsveitunni þegar Hitaveitan kom og svo bættist Rafveitan við og það var svona tilbreyting. Mesta byltingin var hins vegar þegar komu fjölstýringar á krana og maður þurfti ekki alltaf að hanga á krananum, snúinn til að sjá hvað maður var að gera og svo hafa tækin alltaf orðið betri og betri".

Gott starfsfólk er gulli betra og Kjartan var sannarlega framúrskarandi starfskraftur, óskaplega flinkur og til marks um það er að hann hefur alla tíð verið tjónlaus þó vinnuaðstæðurnar hafi sannarlega oft verið krefjandi. Sjálfur segist Kjartan hafa verið heppinn en við sem höfum unnið með honum vitum að það þarf meira til en heppni.

Þó það geti ekki beinlínis talist líklegt að starfsaldur Kjartans verði jafnaður er sá möguleiki þó fyrir hendi því hjá Norðurorku starfar enn Aðalsteinn Baldursson, sem varð sextugur sl. sumar og tók til starfa hjá forverum Norðurorku 1. mars 1978, tæpum fjórum mánuðum áður en hann varð 16 ára. Steini er ekki minna gull en Kjartan en það er efni í aðra grein ;)

Þegar Kjartan var spurður hvort honum hefði ekki fundist viðbrigði að hætta allt í einu að vinna svaraði hann því að fyrstu vikuna hefði honum svolítið liðið eins og hann væri að svíkjast um en eftir það væri þetta bara alger draumur. Hann fer í sund og stundar hestamennsku af krafti og fullvíst að hann slær hvergi slöku við þó vörubíllinn sé nú kominn í góðar hendur annars starfsmanns Norðurorku.

Nýjast