Norðlenska hætti við sölu á gamla frystihúsinu

Gamla frystihúsið í miðbæ Húsavíkur. Mynd: epe
Gamla frystihúsið í miðbæ Húsavíkur. Mynd: epe

Þekkingarnet Þingeyinga (ÞÞ) hefur undanfarið unnið að málum sem snúa að samstarfi stofnana og fyrirtækja í héraðinu m.a. með það í huga að stækka þá klasa sem starfa við rannsóknir og þróun á starfssvæðinu og koma þeim undir eitt þak.  

Þekkingarnetið vinnur að þessum málum með hlutaðeigandi stofnunum, þ.m.t. Náttúrustofu Norðausturlands, Rannsóknasetri Háskóla Íslands og SSNE.  Á vef  ÞÞ segir að vonir standi til þess að í Þingeyjarsýslu verði hægt á næstu misserum að efla verulega starfsemi í atvinnuþróun, rannsóknum og menntunarþjónustu, íbúum og atvinnulífi til góða.  

Einn þáttur í þessari endurskoðun þekkingargeirans á svæðinu snýst um að stofnsetja og tryggja í rekstur aukna þjónustu við frumkvöðla og nýsköpunarverkefni um allt hérað. Á þeim grunni er sérstaklega unnið að uppbyggingu öflugs frumkvöðlaseturs á Húsavík, sem mynda mun suðupott atvinnulífs og rannsókna innan um þekkingarstarfsemina.  Viðræður hafa staðið yfir um nýja húsnæðiskosti til þessarar starfsemi, einkum á Húsavík og í Mývatnssveit.

Heildarhugmyndin um stóran klasa þróunar-, þekkingar- og rannsóknastarfsemi undir einu þaki á Húsavík hefur þannig fengið vinnuheitið “FRYSTIHÚSIД, sem m.a. vísar til þess að verið var að skoða möguleikann á því að hið nýja setur verði hýst í gamla frystihúsi Fiskiðjusamlags Húsavíkur. Á sama grunni hefur verkefnið um frumkvöðlasetur á Húsavík fengið vinnuheitið “Hraðið”, sem einnig vísar í staðbundnar málvenjur þar sem talað var um “Hraðið” sem hraðfrystinguna í sama húsi.

Norðlenska hætti við

Eftir alllangar viðræður um húsnæðisleigu eða sölu á „frystihúsinu“ varð óvæntur viðsnúningur hjá húseigandanum Norðlenska nýverið. Framan af ári hafði Norðlenska unnið málið þannig að þekkingarstarfseminni og hinu nýja frumkvöðlasetri „Hraðinu-nýsköpunarmiðstöð“ yrði boðin langtímaleiga í húsnæðinu. „Norðlenska kostaði til vinnu arkitekts og verkfræðinga til útfærslu á húsnæðinu og var vinna hafin við útfærslu leigusamninga. Tímarammi miðaði að því að umfangsmiklar framkvæmdir færu fram í húsinu nú í ársbyrjun 2021, og starfsemi gæti hafist á síðari hluta þess,“ segir Óli Halldórsson, forstöðumaður ÞÞ í skriflegu svari til Vikublaðsins.

Óli Halldórs 

Óli segir jafnframt að undir lok síðasta árs hafi mál svo þróast, að ósk Norðlenska, í þann farveg að leitað yrði annarra fjárfesta að verkefninu.  „Sem myndi kaupa eignina að hluta eða í heild og sjá um framkvæmdahlutann og leigja svo til langtíma til stofnananna,“ segir Óli og bætir við að tekist hafi að ná saman slíkum aðilum, en Þekkingarnetið ásamt öflugum heimaverktökum, Trésmiðjunni Rein og Steinsteypi, gerðu kauptilboð í efri hæðir hússins rétt fyrir áramót. 

„Sú óvænta niðurstaða varð hjá Norðlenska í kjölfar þessa að fyrirtækið hafnaði kauptilboði í húsnæðið og tilkynnti stofnunum að fallið hafi verið frá áformum um leigu eða sölu hússins. Við höfum ekki skýringar á þessari framvindu, en samningaferlið við Norðlenska hefur verið ágreiningslaust með öllu,“ segir hann en bætir við Þekkingarstarfsemin fari samt sem áður á næsta stig.

 Óli tekur skýrt fram að þekkingarstofnanirnar, með Þekkingarnetið í fararbroddi, muni engan bilbug á sér finna við þessa breyttu stöðu. „Verkefnin sem unnið er að, ekki síst Hraðið-nýsköpunarmiðstöð, munu fara af stað og hefur m.a. verið gengið frá samningum við atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytið um fjármögnun verkefnisins. Til skoðunar eru nýir húsnæðiskostir og nýjar leiðir og er verið að greina kosti þessa dagana í þeim efnum. Þekkingar- og nýsköpunarstarfsemi á Húsavík mun eflast eins og stefnt var að þó það verði innan annarra veggja en að var stefnt. Þekkingarnetið er í samtali við öflugu heimaverktakana áfram og hefur einnig fengið arkitekt til liðs við sig til að greina húsnæðiskosti í miðbæ Húsavíkur,“ segir Óli.

Á byggðarráðsfundi Norðurþings fyrir skemmstu voru settar fram hugmyndir um að ÞÞ fengi til umráða gömlu Verbúðirnar á Hafnarstétt. Óli segist fagna áhuga sem verkefninu er sýndur. „Við hjá Þekkingarnetinu og tengdum stofnunum erum auðvitað mjög ánægð með þann mikla áhuga sem við finnum á þessari uppbyggingu á Húsavík, bæði hjá sveitarstjórnarfólki og íbúum almennt. Það að í byggðarráði Norðurþings komi fram hugmyndir um að liðka fyrir húsnæðismálum þessa geira er bara jákvætt og sjálfsagt að taka allar hugmyndir til skoðunar, Verbúðirnar eins og aðra kosti. Við höfum raunar gætt þess að upplýsa sveitarfélagið vel um alla okkar hugmyndavinnu síðustu daga og vikur og munum gera það áfram,“ segir Óli að lokum

 Rekstarlegur ábati ekki fyrir hendi

Ágúst Torfi Hauksson, framkvæmdastjóri Norðlenska sagði í samtali við Vikublaðið að hann vildi ekki ganga svo langt að kalla þetta viðsnúning. Gjörningurinn hafi einfaldlega ekki gengið upp fjárhagslega fyrir Norðlenska.

Norðlenska nýtir í dag hluta af gamla frystihúsinu. „Við notum það ekki að fullu en nýtum það talsvert í sláturtíð og talsvert utan sláturtíðar líka og notum frystiklefana og fleira allt árið,“ segir Ágúst Torfi.

Ágúst Torfi

Hann segir að annars vegar hafi reynst of dýrt að breyta húsinu og leigja út og hins vegar var kaupverðið ekki hærra en svo að það hafði ekki rekstarlegan ábata í för með sér fyrir Norðlenska. „Þá var ekki talið rétt að ráðast í verkið.“

Þá segir Ágúst Torfi að sér þyki mjög miður að verkefnið hafi ekki gengið upp enda hafi hugmyndir manna um nýtingu á húsinu verið mjög áhugaverðar. „Þetta voru flott plön og ég hefði mjög gjarna viljað sjá þetta verða að veruleika. En eins og ég orðaði þetta á sínum tíma við sveitarstjórn Norðurþings þegar spurt var út í þetta: Eins og þetta lá á borðinu þá hafði þetta engan rekstrarlegan ábata fyrir Norðlenska en klárlega dregur úr möguleikum fyrirtækisins til þróunar. Ef það er engin rekstrarlegur hagur í að selja húsið, að við stöndum á sléttu eftir að hafa losnað við það, þá höfum við dregið úr möguleikum okkar til þróunar fyrir ekkert andlag. Það gengur ekki upp,“ útskýrir hann.

Rekstur íslenskra afurðastöðva hefur um langt skeið verið  erfiður, það á við um Norðlenska sem og aðrar afurðarstöðvar. „Við erum því  miður ekki í stöðu til að afsala okkur verðmætum þó að verkefnið sé áhugavert. Við bara getum það ekki, hvorki fyrir hönd eigendanna sem eru bændur, né hreinlega út frá efnahag félagsins. Okkur þótti mjög miður að þetta skildi ekki ganga upp, þetta er mjög flott verkefni. Það hefði þurft að ráðast í verulegar framkvæmdir til að breyta húsinu til útleigu og svo eðlilega miðaðist kauptilboðið sem okkur barst við að það þyrfti að kosta til breytinga. Niðurstaðan er sú að þetta gekk ekki,“ segir Ágúst Torfi að lokum.

Nýjast