Njáll Trausti Friðbertsson alþingismaður með þingsályktun í upphafi þings Ein af þyrlum gæslunnar verði staðsett á Akureyri

Njáll Trausti Friðbertsson alþingismaður og oddviti Sjálfstæðisflokksins í Norðausturkjördæmi
Njáll Trausti Friðbertsson alþingismaður og oddviti Sjálfstæðisflokksins í Norðausturkjördæmi

„Það hefur orðið mikil uppbygging á Akureyrarflugvelli undanfarin misseri og því er einstaklega gott tækifæri fyrir Landshelgisgæsluna að koma sér upp starfsstöð á flugvellinum. Hvort heldur það verði með því að byggja nýtt flugskýli eða aðstaða fengist í öðrum skýlum sem fyrir eru,“ segir Njáll Trausti Friðbertsson alþingismaður og oddviti Sjálfstæðisflokksins í Norðausturkjördæmi,  sem mun við upphaf Alþings síðar í haust leggja fram þingsályktunartillögu um að eina af þyrlum Gæslunnar verði staðsett á Akureyri.

Hann segir að þyrla sem staðsett var norðan heiða um verslunarmannahelgi hafi sannað gildi þess að hafa ekki allar þyrlur á sama svæði. Að hafa allar björgunarþyrlur staðsettar í Reykjavík skerði viðbragðstíma og þjónustugetu, sérstaklega gagnvart Norður- og Austurlandi sem og hafsvæðum þar sem veður geta verið válynd. Þannig búi sjófarendur við þessa landshluta við minna öryggi þegar björgunarþyrlusveit er einungis staðsett á suðvesturhorni landsins.

Óskynsamlegt að hafa allar þyrlur á sama veðursvæði

„Lausnin felst í því að staðsetja þyrlu eða hluta flugdeildar Gæslunnar á Akureyri, í námunda við landfræðilega miðju Íslands. Tenging við sjúkraflug frá Akureyri er augljós, en fyrir hendi er reynsla sem nýtist vel.

Bendir Njáll Trausti á að það sjónarmið að hafa þyrlu staðsetta á Akureyri hafi margoft komið fram um árin og fjölmargir hafi ályktað um það, m.a. þegar brottför varnarliðsins kom til á sínum tíma. Þá hafi verið nefnt að skynsamlegt væri að hafa fleiri en eina starfstöð fyrir björgunarþyrlur til að stytta viðbragðstíma. Landsspítali hafi einnig bent á mikilvægi þess að hafa þyrlu á Akureyri í ljósi mikilvægis jöfnunar á heilbrigðisþjónustu og ýmis félagasamtök sem tengjast sjómönnum tóku undir.

Njáll Trausti segir óskynsamlegt að hafa allar þyrlur fastar á sama veðursvæðinu. „Að hafa þyrlurnar allar í Reykjavík dreifir þjónustunni illa og það er alveg afleitt fyrir íbúa sem lengst eru frá á norðan- og austanverðu landinu og hafsvæðinu þar út af,“ segir hann og bætir við að ekki hafi þótt góðri lukku að stýra að hafa öll egg í sömu körfunni.

Nýjast