Níu í prófkjöri Pírata í Norðausturkjördæmi

Níu einstaklingar taka þátt í prófkjöri Pírata í Norðausturkjördæmi. Það hófst í dag og stendur til þriðjudags.

Frambjóðendum gafst í dag tækifæri að kynna sig á kosningafundi sem Píratar stóðu fyrir í Reykjavík eða með að senda inn myndband á þann fund. Fimm af níu frambjóðendum kjördæmisins nýttu þann valkost.

Fyrstur þeirra var Viktor Traustason, sem vakti athygli í vor er hann bauð sig fram til forseta Íslands. Viktor sagðist ekki sækjast eftir oddvitasætinu, hann hefði aðeins farið inn á vef Pírata og skráð sig í prófkjör. Viktor hefur að mestu búið á Austurlandi síðustu tvö ár og starfað þar í sláturhúsi og við fiskvinnslu.

Theodór Ingi Ólafsson býr í Reykjavík en er ættaður frá Akureyri. Hann starfar sem forstöðumaður í íbúðakjarna fyrir geðfatlaða. Hann býður sig fram í oddvitasætið.

Adda Steina er fyrrum tómstunda- og forvarnarfulltrúi Fljótsdalshéraðs. Hún sagðist taka hvaða sæti sem er en „tæki efsta sætinu fagnandi.“

Bjarni Arason, sem er lærður lögreglumaður og ferðamálafræðingur á Grenivík og Aðalbjörn Jóhannsson úr Norðurþingi, háskólanemi sem starfað hefur í menntakerfinu, tóku ekki fram sérstök sæti en þeir kynntu sig á myndbandi.

Að auki eru í framboði Rúnar Gunnarsson, yfirhafnarvörður á Seyðisfirði,

Guðrún Ágústa Þórdísardóttir, fyrrum varaþingmaður flokksins í kjördæminu,

Júlíus Blómkvist Friðriksson, sölumaður hjá Tölvuteki á Akureyri

Lena Sólborg Valgarðsdóttir, leikskólastjóri í Kópavogi.

Kosning í prófkjörinu hófst klukkan 16:00 og stendur í tvo sólarhringa. Það er bindandi fyrir fimm efstu sætin en kjörstjórn raðar í önnur sæti.

Nýjast