Skoðanagrein - Fréttatilkynning lögreglustjóra

Hreiðar Eiríksson lögmaður
Hreiðar Eiríksson lögmaður

Mikið hefur verið skrifað og skrafað um fréttatilkynningu Lögreglustjórans á Norðurlandi eystra 26. september þess efnis að embættið hefði hætt rannsókn á ætlaðri byrlun, afritun á upplýsingum af síma einstaklings og dreifingu á kynferðislegu efni sem hann geymdi. Ástæða umræðunnar er sú að ekki er venjan að lögreglustjórar birti svona langar tilkynningar þegar ákvörðun er tekin um að hætta rannsóknum sakamála.

Reyndur lögmaður hefur lýst þeirri skoðun sinni að ástæða sé til að embættisfærslur Lögreglustjórans á Norðurlandi eystra verði rannsakaðar. Slíkar rannsóknir eru fátíðar og almennt séð fara rannsóknir á framkvæmd löggæslu þannig fram að lögreglan rannsakar sjálfa sig. Með öðrum orðum rannsakar einn lögreglustjóri framkvæmd annars.  Slíkar rannsóknir njóta eðlilega lítils trausts og þeim fer fjölgandi sem líta á þær sem hreina sýndarmennsku.

Málið varðar framkvæmd opinbers valds og um slíkt er eðlilegt og nauðsynlegt að ræða opinberlega.

 Gegnsæi og löggæsla

Það er hlutverk lögreglu að rannsaka mál þegar grunur leikur á að refsivert brot hafi verið framið. Undan því getur lögregla ekki vikist. Það skipti ekki máli hver á í hlut, hvorki sem þolandi eða ætlaður gerandi. Staða eða starfsheiti þeirra sem lögregla þarf að spyrja skiptir heldur ekki máli þó að heimildir þeirra til að svara einstaka spurningunum kunni að vera misjafnar. Og meðan vafi leikur á því hvort aðili sem lögregla spyr á að hafa réttarstöðu vitnis eða sakbornings, þá skal viðkomandi njóta þeirrar réttarstöðu sem er honum hagstæðari.  Með öðrum orðum þá réttarstöðu sem veitir honum mestu réttindin. Sakborningar njóta ríkari réttinda en vitni og því njóta menn réttarstöðu sakbornings í vafatilvikum, en oft breytist réttarstaða eftir því sem á rannsókn líður. Rannsóknir afbrota er vandasamt verk og útheimta mikla nákvæmni, þrautseigju og útsjónarsemi, en ekki síður heilindi, siðferðislegt þrek, yfirvegun, hugrekki, sjálfskoðun og virðingu fyrir staðreyndum, fólki og regluverki. Verði það niðurstaða sakamálarannsóknar að refsivert brot hafi verið framið skal ákæra þann sem þar var að verki nema heimilt sé samkvæmt lögum að ljúka málin með öðrum hætti. Er sú regla kölluð ákæruregla.

Almennt má slá því föstu að gegnsæi um meðferð opinbers valds sé af hinu góða í lýðræðislegum réttarríkjum og að með því að greiða fyrir því að réttar upplýsingar berist til borgaranna verði stuðlað að því traust ríki milli þeirra og opinberra stofnana. Í þeim skilningi er augljóst að fréttatilkynningar um niðurstöður rannsókna sem hafa verið í opinberri umræðu eru af hinu góða ef rétt er að málum staðið.

Fréttatilkynning lögreglustjórans á Norðurlandi eystra fjallaði um mál þar sem hópur blaðamanna verið meðal sakborninga og höfðu þeir allt frá upphafi rannsóknarinnar nýtt greiðan aðgang sinn að fjölmiðlum til að miðla upplýsingum til almennings og meðal annars reynt að tengja rannsóknina við nafngreint fyrirtæki þótt það tengdist málinu ekki. Þetta kann að hafa orðið til þess að lögreglustjóri hefur metið það svo að rétt væri að ganga lengra en venja var við birtingu upplýsinga svo unnt væri að leiðrétta þá afvegaleiddu umræðu sem sakborningarnir höfðu komið af stað.  Fyrir slíku eru veigamikil rök.

Meðalhóf

Við birtingu yfirlýsingar eins og þeirrar sem birtist 27. september verður að gæta að óskrifuðum meginreglum um hófstillingu, sanngirni og meðalhóf við beitingu opinbers valds. Þeir sem hafa slíkt vald skulu beita því þannig og koma þannig fram að borgurunum verði ekki gerður skaði, miski eða óþægindi umfram það sem óhjákvæmilegt er til að ná lögmætu markmiði sem stjórnvaldið stefnir að. Það kann að vera eðlilegt og nauðsynlegt að miðla upplýsingum um þá háttsemi sem var til rannsóknar, hvernig hún var heimfærð til refsiákvæði, hvernig rannsókninni vatt fram og fara örfáum orðum um ástæður þess að henni var að lokum hætt. En það vekur umhugsun að lögreglustjóri hafi kosið að ganga miklu lengra í þessu tilviki.

Ærumeiðingar?

Í tilkynningunni var vikið að því að tafir hafi orðið á rannsókn málsins vegna heilsufars eins af sakborningunum.  Þar sem brotaþoli hafði margsinnis verið nafngreindur í fjölmiðlum og upplýsingum sem þar höfðu komið fram mátti lögreglustjóra vera ljóst að lesendur fréttatilkynningarinnar gátu hæglega vitað hver þessi sakborningur er. Margítrekuð umfjöllun í tilkynningunni um veikindi sakborningsins, andlegt ástand hans og að viðkomandi hafi neitað að gangast undir sakhæfnismat eru miðlun viðkvæmra persónupplýsinga og gætu talist vega að æru viðkomandi einstaklings í skilningi 235. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940, einkum vegna þess að í tilkynningunni er höggvið mjög nærri því að staðhæfa að þessi einstaklingur hafi gerst sekur um háttsemi sem refsing liggur. Með því kann auk þess að vera brotið gegn rétti viðkomandi skv.  2. mgr. 70. gr. stjórnarskrárinnar til að teljast saklaus uns sekt er sönnuð.

Að hluta til gegnir öðru máli varðandi umfjöllun um aðra sakborninga.  Ólíkt þessum eina sem áður hefur verið minnst á höfðu þeir nýtt sér málið til að gera sjálfa sig sýnilega á opinberum vettvangi og rekið þar opinbera og áberandi hagsmunabaráttu fyrir sjálfa sig. Svigrúm lögreglustjóra til opinberrar umfjöllunar var í þeirra tilviki meira en þó ekki svo að réttmætt væri að ganga lengra en leiðrétta mögulegar rangfærslur. Umfjöllun um dómsmál sem vörðuðu ágreining um réttindi sakborninganna var óþörf, enda var almenningi þegar kunnugt um þau dómsmál og niðurstöðu þeirra. Ekki verður enda séð að þau hafi haft áhrif á þann heildartíma sem rannsóknin tók.

Sjónarmið um fyrningu

Í tilkynningu lögreglustjóra er látið í veðri vaka að fyrningarákvæði laga hafi meðal annars leitt til þess að rannsókn á ætluðum brotum gegn 217., 218., 199. a, 228., og 229 gr. almennra heningarlaga var hætt. Um fyrningu refsinga er fjallað í IX. kafla hegningarlaga og miðast fyrningarfrestur við refsiramma þess hegningarlagaákvæðis sem talið er að eigi við.  Brot gegn 217. gr. hegningarlaga fyrnist á 2 árum, brot gegn 218. gr. á 5 til 15 árum, brot gegn 199 gr. a á 2 til 5 árum, brot gegn 228. gr. á 2 árum og sömu sögu er að segja um brot gegn 229. gr.

Fyrningarfrestur byrjar að líða á þeim degi sem brot er framið.  Fyrning rofnar þegar rannsókn hefst gegn tilteknum einstaklingi sem sakborningi sem er grunaður um brotið. Hafi rannsókn lögreglu byrjað innan tveggja ára frá því að sá atburður gerðist sem var til rannsóknar, gat því brot tæpast verið fyrnt þegar lögreglustjóri tók ákvörðun um að hætta rannsókninni. Frá þessu eru þó ef til vill frávik hvað varðar þá einstaklinga sem fengu stöðu sakborninga þegar á rannsókna leið.  Ekkert er hægt að fullyrða um þetta enda heyrir úrlauns um fyrningu undir dómstóla.

Rannsókn á rannsókn?

Það er engin leið að slá því föstu án sérstakrar skoðunar sérfræðinga hvort eðlilega hafi verið að málum staðið við rannsóknina, ákvörðun um að hætta henni og birtingu fréttatilkynningarinnar.  Ætla má að allir forstöðumenn stofnana ríkisins geri og vilji gera sitt besta til að stofnanir sem þeir stýra ræki skyldur sínar í samræmi við lög um um þær gilda. Engin skynsamleg ástæða er til að gæla við eða setja fram samsæriskenningar um annað. Á hinn bóginn kann að vera að af málinu megi draga lærdóm sem gæti horft til framfara fyrir lögregluembætti landsins og um leið orðið til þess að upplýsa almenning um málið og málefni af þessu tagi almennt. Það ætti því að vera lögreglustjóra, almenningi og málsaðilum fagnaðarefni ef ákveðið yrði að skoða málið frekar.

Nýjast