Neyðarstöðvum í Vaðlaheiðargöngum fjölgað
„Það er svolítið furðulegt að EFTA gerir ekki kröfu um að gsm símasamband sé í jarðgöngum né heldur almennt um hringveginn. Það er mun algengara og eðlilegra að fólk grípi til eigin gsm síma til að hringja í Neyðarlínu heldur en að hlaupa að næsta síma með snúru,“ segir Valgeir Bergmann framkvæmdastjóri Vaðlaheiðarganga.
Undanfarið hefur staðið yfir vinna við að fjölga neyðarstöðvum í Vaðlaheiðargöngum og er það gert að kröfu Samgöngustofu og EFTA. Neyðarstöðvar sem innihalda síma sem beintengdur er í 112 og tveimur slökkvitækjum hafa verið á 250 metra millibili í Vaðlaheiðargöngum eins og flest öllum göngum á Íslandi , en krafa er um að slíkar stöðvar séu settar upp með 150 metra millibili. Engin krafa er um gsm samband í jarðgöngum. Unnið er að því að bæta neyðarstöðvum á milli núverandi stöðva og verður þannig um 125 metrar á milli neyðarstöðva. Alls verða settir upp 30 nýir símar og 60 ný slökkvitæki í göngin. Alls verða því á neyðarstöðvum í Vaðlaheiðagöngum 60 símar og yfir 120 slökkvitæki.
Lýkur í febrúar
Valgeir segir að verkið vinnist vel en gert er ráð fyrir að því að lokið verði við að tengja alla síma við rafmagn í febrúar næstkomandi. Einnig þarf að setja upp skilti sem sett eru fyrir ofan neyðarsímann. Hann segir að kostnaður nemi um 10 milljónum króna, en það sé ekki að fullu ljóst strax þar sem verkinu sé ekki lokið.
Spurst fyrir um hvar eigi að borga vegtoll
Valgeir segir að auk þess sem neyðarsímar séu tiltækir sé gsm símasamband alls staðar í jarðgöngunum. „Í þau þrjú ár sem Vaðlaheiðargöng hafa verið opin fyrir almennri umferð hafa þessir neyðarsímar aldrei, svo ég viti til verið notaðir til að hringja í Neyðarlínuna til að tilkynna neyðarástand. Erlendir ferðamenn hafa í nokkur skipti tekið upp tólið og hringt úr þessum símum í Neyðarlínuna einkum til að spyrjast fyrir um hvar eigi að borga vegtollinn, en neyðarsímklefarnir í útskotum og utan ganganna minna svolítið á breska símaklefa,“ segir hann.
/MÞÞ