„Nauðsynlegt að tryggja lífsgæði svo að fólk vilji flytja hingað og búa áfram“

Hilda Jana Gísladóttir.
Hilda Jana Gísladóttir.

Eins og fram hefur komið hefur bæjarstjórn Akureyrar fella niður meiri-og minnihluta í bæjarstjórn það sem eftir lifir kjörtímabilsins. Bæjarstjórnin gerði í kjölfarið með sér samstarfssáttmála um hvaða aðgerða verða gripið til. Sala húsnæðis, endurskoðun launa æðstu embættismanna, hækkun gjaldskrár, skertur opnunartími, gjaldskylda í bílastæði og einföldu stjórnsýslunnar er meðal þess sem gera á til að rétta af rekstur Akureyrarbæjar.

Vikublaðið spurði Hildi Jönu Gísladóttur oddvita Samfylkingarinnar í bæjarstjórn Akureyrar um nokkur atriði, en ýmislegt er ennþá á umræðustig.

-Hvernig á að tryggja samkeppnishæfni sveitarfélagsins þannig að fyrirtæki og stofnanir telji sveitarfélagið fýsilegan kost fyrir starfsemi sína þannig að fjölbreyttum störfum fjölgi?

„Fyrst og fremst er nauðsynlegt að tryggja almenn lífsgæði og fjölbreytileika svo að fólk vilji flytja hingað sem og halda áfram að búa í sveitarfélaginu. Til þess að rýna með markvissum og faglegum hætti stöðuna nú og hvernig við getum helst bætt samkeppnisstöðu okkar, þá ætlum við að láta gera mat á samkeppnishæfni sveitarfélagsins. Um er að ræða mat á nokkrum lykilþáttum er varða búsetu og atvinnulíf sem tengjast t.d. gjöldum, þjónustu og lóðarmálum svo eitthvað sé nefnt.  Þá er mikilvægt að bæjarfulltrúar og starfsmenn sveitarfélagsins haldi áfram að eiga í samtali við ríkisvaldið um ýmis mikilvæg mál s.s. menningarsamning, jöfnun flutningskostnaðar, heilbrigðisþjónustu, millilandaflug um Akureyrarflugvöll, eflingu Háskólans á Akureyri, Sjúkrahússins á Akureyri og fjölgun starfa án staðsetningar svo eitthvað sé nefnt.“

-Lækka á heildarlaunakostnað þannig að hann verði ásættanlegt hlutfall af
rekstrartekjum. Hver er kostnaðurinn í dag og hversu langt er hægt að fara niður?

„Verið er að fara yfir launakostnaðinn og greina og meta með hvaða hætti og hversu mikið hægt er að draga úr launakostnaði og þá ekki síst yfirvinnu. Til upplýsingar þá var hlutfall launa af rekstrarkostnaði A hluta 63,3% árið 2018 og 59,9% árið 2019. Reyndar væru tölurnar lægri ef við tækjum lífeyrisskuldbindingar út fyrir sviga eða 58,2%. Ásættanlegra væri ef hlutfallið væri nær 55%. Þess má þó geta að hlutfallið lækkar einnig með því að auka tekjur og er það ekki síður mikilvægt. Í því samhengi má nefna fyrirhugaða vinnu vegna málaflokks fatlaðra í samstarfi ríkis og sveitarfélaga, sem og vinnu vegna tekjuskiptingar almennt milli ríkis og sveitarfélaga. Segja má að sveitarstjórnarstigið í heild sinni sé ekki sjálfbært í rekstri, en í samantekt sem kynnt var á fjármálaráðstefnu sveitarfélaga kom fram að rekstur sveitarfélagastigsins hafi aðeins verið jákvæður í 5 ár á 25 ára tímabili. Þessu þarf að breyta.“

-Hvernig telur þú best að hagræða í snjómokstri?

„Ég tel að við ættum að skoða sérstaklega þann kostnað sem felst í því að keyra snjó langar leiðir til þess að sturta honum í sjóinn og hvort bæði sé hagkvæmara og umhverfisvænna að nýta betur snjólosunarsvæði víða um bæinn. Því tel ég mikilvægt að gera ráð fyrir snjólosunarsvæðum í skipulagi bæjarins. Þá tel ég rétt að funda beint með þeim sem sinna snjómokstri og fá þeirra álit og tillögur enda þekkja þau snjómoksturinn best. Þá tel ég að við ættum að ræða málið innan Jöfnunarsjóðs sveitarfélaga enda nokkuð ljóst að snjóþyngsli eru ólík milli landshluta og því réttlætismál að nýta sjóðinn til að jafna aðstöðu sveitarfélaga á snjóþungum svæðum.“

-Nú hefur verið nefnt að með því að afnema minni-og meirihluta í bæjarstjórn sé kominn vísir að persónukjöri í næstu sveitarstjórnarkosningum. Hvernig líst þér á hugmyndir um persónukjör?

„Mér finnst það áhugaverð hugmynd sem er vel þess virði að skoða.“

 

Nýjast