20. nóvember - 27. nóvember - Tbl 47
Nauðsyn að auka fjármagn til refa- og minkaveiða
Þátttaka ríkisins vegna refa- og minkaveiða hefur hríðfallið undanfarna áratugi og það sem greitt er um þessar mundir dugar engan vegin til að mæta nauðsynlegum kostnaði við veiðarnar. Stefnir í óefni verði ekki spornað við nú þegar.
Þetta kemur fram í ályktun sem samþykkt var á fjölmennum fundi landeigenda, æðarbænda, sauðfjárbænda, íbúa og annarra hagsmunaaðila í Norðurþingi sem haldinn var í Lundi, Öxarfirði í gærkvöld. Skorað var á ríkisvaldið, Umhverfisstofnun og Norðurþing að auka verulega framlag til refa- og minkaveiða til að takast megi að útrýma mink og takmarka tjón af völdum refa.
Refa- og minkaveiðar hafa verið nokkuð í umræðunni í Norðurþingi síðastliðið ár eftir að fyrirkomulagi veiðanna var breytt þannig að þorri veiðimanna sá sér ekki fært að stunda veiðar með sama hætti og árin þar á undan.
Á síðasta fundi skipulags- og framkvæmdaráðs Norðurþings samþykkti ráðið að haldinn yrði vinnufundur um fyrirkomulag veiðanna þar sem þeim veiðimönnum sem hafa verið síðustu 3 ár með samning við Norðurþing um minka- eða refaveiðar yrði boðin þátttaka og einnig þeim landeigendum sem samningar um refa- og minkaveiðar ná yfir. Markmið fundarins væri að skapa vettvang fyrir landeigendur og veiðimenn til að koma sínum sjónarmiðum á framfæri og gera tillögur að útfærslu veiða á refum og minkum.
Fundurinn var afar vel sóttur og sköpuðust málefnalegar og góðar umræður meðal fundarmanna.
Eftirfarandi ályktun var samþykkt á fundinum:
„Fjölmennur fundur landeigenda, æðabænda, sauðfjárbænda, íbúa og annarra hagsmunaaðila í Norðurþingi haldinn í Lundi í Öxarfirði 12. desember 2023 skorar á Ríkisvaldið, Umhverfisstofnun og Norðurþing að auka verulega fjármagn til refa- og minkaveiða til að takast megi að útrýma mink og takmarka tjón af völdum refa. Kostnaðarþátttaka af hálfu Ríkisins hefur hríðfallið undanfarna áratugi og er í dag föst tala sem dugar engan vegin til að mæta nauðsynlegum kostnaði við veiðarnar og stefnir í óefni ef ekki er spornað við nú þegar.“