Námið muni nýtast sem hagnýtur grunnur inn í framtíðina

Nemendur hafa tekið nýju námsleiðinni afar vel. Mynd/FSH
Nemendur hafa tekið nýju námsleiðinni afar vel. Mynd/FSH

Framhaldsskólinn á Húsavík (FSH) fór af stað með nám í rafíþróttum í fyrsta sinn nú í haust en áhugi á íþróttagreininni hefur farið vaxandi undanfarin ár.

Halldór jón

Halldór Jón Gíslason, aðstoðarskólastjóri segir í samtali við Vikublaðið að við undirbúning námsins hafi skólinn verið í samvinnu við Rafíþróttasamtök Íslands. „Við höfum komið á fót fyrsta flokks aðstöðu til kennslu í rafíþróttum í húsnæði skólans og munum halda áfram að bæta hana á næstu árum,“ segir hann.

Nemendur hafa tekið nýju námsleiðinni fagnandi og eru kennslustundir oft mjög líflegar.

 Ekki bara tölvuleikjaspilun

Námið samanstendur ekki einungis af hefðbundnum rafíþróttum og tölvuleikjaspilun heldur læra nemendur um markmiðasetningu, viðburðastjórnun, þjálfun, sögu, sálfræði, fjölmiðlafræði, ensku, íslensku og líffræði ásamt öðru sem tengist heimi tölvuleikjanna og einstaklingnum sjálfum.

„Það sem við höfum verið að leggja áherslu á hjá okkur er í rauninni notandinn sem slíkur, íþróttaiðkandinn. Fókusinn hefur verið á að byggja upp iðkandann á sama hátt og við byggjum hann upp í öðrum íþróttagreinum,“ útskýrir Halldór og bætir við að rafíþróttir séu í mikilli sókn þrátt fyrir að vera frekar ný grein hér á landi.  

„Við höfum verið í samskiptum við Rafíþróttasamtök Íslands og verið með tengilið þar inni sem hefur verið okkur innan handa. Við höfum borið undir hann hugmyndir og annað slíkt. Svo er þetta að verða sífellt algengara og fleiri skólar verið að taka þetta upp líka,“ segir Halldór.

Tengist öðrum námsgreinum

Halldór segir að námslína FSH sé þannig að nemendur taka 50-60 einingar í kjarna innan ákveðinnar stúdentsbrautar; í rafíþróttum og tengdum fögum eins og getið er hér að ofan. „Þetta tengist allt saman og það er pælingin hjá okkur.“

Þetta er í fyrsta sinn sem skólinn býður upp á slíka námsleið og hefur hún farið vel af stað. „Fyrsti áfanginn okkar í rafíþróttum var keyrður af stað núna í haust í nýjum hópi nemenda og svo verður annar áfangi á næstu önn. Hann verður með fókus á miðlun og streymi. Hljóðupptöku, streymisupptökur en einnig viðburðastjórnun þar sem nemendur fá innsýn inn í það hvernig mót og annað slíkt sem tengjast rafíþróttum eru sett upp. Nemendur þurfa að læra hvernig á að búa til plön varðandi svoleiðis viðburði og hleypa þeim af stokkunum,“ segir Halldór og bætir við að mikið sé um mótahöld innan framhaldsskólanna.  „Þetta eykur tækifæri okkar á að vera með og gera okkur gildandi. Það er bara spennandi.“

Framtíð greinarinnar björt

Þá segist Halldór vonast til þess að í framtíðinni verði til sérstök rafíþróttadeild, mögulega innan Völsungs eins og hefur raunar verið í umræðunni. „Framhaldsskólinn á Húsavík er aðili að Rafíþróttasamtökum Íslands og er þar inni sem deild til að byrja með svo er vonandi hægt að útfæra það nánar síðar. Við þurfum bara að koma þessu á aðeins stærra svið hér innan samfélagsins. Þetta er mjög spennandi og mjög skemmtilegt enda snerta tölvuleikir okkur flest á einhvern hátt,“ segir Halldór að lokum.

Smellið gif

Nýjast