13.nóvember - 20.nóvember - Tbl 46
Næstmesta úrkoma í október frá upphafi mælinga
Óvenjumikil úrkoma í upphafi mánaðar á Norðausturlandi olli miklum skriðuföllum í Kinn og Út-Kinn. Mynd á fésbókarsíðu Lögreglunnar á Norðurlandi eystra.
Meðalúrkoma á Akureyri í nýliðnum október mánuði er sú næstmesta sem mælst hefur í bænum frá upphafi. Sólskinsstundir voru færri í október en í meðalári.
Almennt var októbermánuður úrkomusamur á norðan- og austanverðu landinu og einkenndist veðurfarið af norðaustlægum áttum. Samanborið við sama mánuð undanfarin tíu ár var október tiltölulega kaldur um norðanvert landið. Óvenjumikil úrkoma í upphafi mánaðar á Norðausturlandi olli miklum skriðuföllum í Kinn og Út-Kinn.
Á Akureyri var meðalhitinn 2,8 stig sem er 0,7 stigum undir meðallagi síðustu þriggja áratuga og 1,2 stigum undir meðallagi síðastliðinna 10 ára. Þetta kemur fram í yfirliti yfir tíðarfar í október á vef Veðurstofunnar.