Nærsamfélagið spornar gegn matarsóun
mth@vikubladid.is
„Fyrstu helgina sem frískápurinn var í notkun spornaði nærsamfélagið gegn heilmikilli matarsóun og það er einmitt þannig sem við viljum hafa það,” segir Hrönn Björgvinsdóttir starfsmaður á Amtsbókasafninu á Akureyri.
Frískápur við safnið var tekin í notkun í lok liðinnar viku eftir að búið var að smíða skýli utan um skápinn, en frískápurinn er staðsettur við Amtsbókasafnið við Brekkugötu. Hrönn segir að stefnt sé að því að fullklára skýlið og mála það í glaðlegum litum. Frískápurinn er sameign sem miðar að því að draga úr matarsóun og byggja upp samheldnara samfélag með því að deila mat. Hver sem er má skilja eftir matvæli í skápunum og einnig að taka þar matvæli.
Fram út björtustu vonum
„Viðtökunar fara fram úr björtustu vonum,” segir Hrönn. Eftir helgina var ískápurinn næstum tómur og litlu hefur þurft að henda úr honum. Einstaklingar, veitingastaðir og bakarí hafa gefið ýmis matvæli í frísskápinn.
Hrönn nefnir að meðal þess sem farið hefur í gegnum skápinn undanfarna daga eru hjónabandssælur, risotto, jógúrt, kjúklingabitar, rabbarbari og pasta. Mötuneyti sem var að loka vegna sumarleyfa kom með tugi eggja svo eitthvað sé nefnt. „Það er líka ákaflega ánægjulegt að segja frá því að fólk hefur verið duglegt að sækja sér mat úr frísskápnum.