Nær helmingur á móti lausagöngubanni

Mynd/MÞÞ
Mynd/MÞÞ

Í tengslum við þjónustukönnun Gallup 2021 voru íbúar Akureyrarbæjar spurðir sérstaklega um afstöðu til lausagöngu katta í bænum. Frá þessu er greint á vef Akureyrarbæjar.

Meirihluti bæjarstjórnar samþykkti í nóvember sl. að endurskoða samþykkt um kattahald í bænum, sem felur í sér að lausaganga verði ekki heimil frá ársbyrjun 2025.

Í könnun Gallup var fólk spurt hvort það væri hlynnt eða andvígt þessari ákvörðun bæjarstjórnar. Af þeim sem tóku afstöðu sögðust 22% vera alfarið hlynnt ákvörðuninni, 8% mjög hlynnt, 9% frekar hlynnt, 16% hvorki né, 11% frekar andvíg, 9% mjög andvíg og 26% alfarið andvíg.

Þau sem sögðust vera andvíg ákvörðuninni voru einnig spurð hvort þau hyggist grípa til sérstakra aðgerða í kjölfar ákvörðunar bæjarstjórnar um að banna lausagöngu katta. 35% svöruðu því játandi og 65% neitandi.

Niðurstöður könnunarinnar voru ræddar á fundi bæjarráðs í morgun. Bæjarráð samþykkti að óska eftir frekari gögnum frá umhverfis- og mannvirkjasviði sem lögð verða til grundvallar frekari umræðu um málið í bæjarstjórn.

Nýjast