13.nóvember - 20.nóvember - Tbl 46
Náðu að aðlaga sig aðstæðum í faraldrinum
Óvenjulegar aðstæður hafa skapast vegna Kórónuveirunnar, og mikil óvissa er um efnahagsleg áhrif faraldursins og hve lengi hann mun vara segir í ársreikningi Menningarfélags Akureyrar. Félaginu tókst engu að síður að halda sjó þrátt fyrir boðaföll.
Hagnaður varð af rekstrinum upp á 3,4 milljónir króna eftir síðasta rekstrarár. Lækkar nokkuð frá fyrra ári þegar félagið skilaði ríflega 26 milljónum króna í tekjuafgang. Tekjur Menningarfélagsins lækkuðu um rúmlega 3% milli ára, fóru úr tæplega 409 milljónum króna í nær 395 milljónir.
Dregið úr starfsemi á ákveðnum sviðum
Félagið hefur þurft að draga verulega úr starfsemi sinni á ákveðnum sviðum á meðan heimsfaraldur gengur yfir, en getað haldið starfsemi áfram á öðrum. Sýningatímabil leiksýninga hafa verið lengd þar sem takmarkaður fjöldi áhorfenda gat verið í salnum. Aftur á móti hefur félaginu gengið nokkuð vel að aðlaga sig aðstæðum, sýningar og viðburðir hafa verið færðir til og sér þess stað í skuldbindingu á efnahagsreikningi sem fyrirfram innheimtar tekjur.
„Stjórnendur gera því ráð fyrir því að rekstrarárið 2021/22 verði með nokkuð eðlilegu móti en það byggist að miklu leyti á þróun faraldursins. Ætla má að eftirspurn eftir menningarviðburðum verði umtalsverð eftir tímabil lokana og takmarkana,“ segir í ársskýrslu félagsins. /
MÞÞ