Minningartónleikar og Helgi Björns á Græna hattinum

Minningartónleikar um söngkonuna Erlu Stefánsdóttur frá Akureyri verða haldnir annað kvöld, fimmtudaginn 28. febrúar á Græna hattinum. Erla Stefánsdóttir er án efa þekktust fyrir flutning sinn á laginu Lóan er komin sem kom út á sjöunda áratugnum. Hún söng inn á fjölmargar plötur á ferli sínum og skemmti víða um land með ýmsum hljómsveitum.

Erla fæddist 1947 í S-Þingeyjasýslu en fluttist síðan til Akureyrar þar sem söngferill hennar hófst. Hún gerðist þá söngkona hljómsveitarinnar Póló sumarið 1964 og söng m.a. líka með Hljómsveit Ingimars Eydal. Erla lést árið 2012 eftir veikindi. Þeir sem koma fram á tónleikunum eru Erla, Loki og Bjarmi (barnabörn Erlu) sem sjá um söng og gítar, Haukur Pálma trommur, Stebbi Gunn bassa, Billi Halls gítar, Valmar Valjots á píanó og Ármann Einarssson á saxónón, flautur, klarinett og hljómborð. Tónleikarnir hefjast kl. 21.00. Miðaverð er kr. 2900 og allur ágóði af tónleikunum rennur til Krabbameinsfélags Akureyrar.

Á föstudags- og laugardagskvöld er það sjálfur Helgi Björns sem heldur tónleika á Græna hattinum. Helgi hefur átt gifturíkan feril sem söngvari, leikari og athafnamaður. Hann hefur leitt hljómsveitir eins og Grafík, SSSól, Reiðmenn vindanna og Kokteilpinna, gefið út tónlist með þessum sveitum og í eigin nafni og löngu orðinn samofinn þjóðarsálinni með lögum sínum og textum. Tónleikarnir hefjast kl. 22.00 bæði kvöldin.

 

Nýjast