Minningarathöfn um Jón Karlsson hjúkrunarfræðing og sendifulltrúa RKÍ
Í tilefni af því að í dag sunnudag, eru 20 ár liðin síðan Jón Karlsson sendifulltrúi var veginn við hjálparstörf fyrir utan Kabúl í Afganistan 22. apríl 1992, var haldin minningarathöfn um Jón í Kjarnaskógi á Akureyri í morgun. Á meðal viðstaddra voru nánustu ættingjar Jóns, Anna Stefánsdóttir formaður Rauða kross Íslands, Jón Knutsen formaður Akureyrardeildar Rauða krossins og Robert Mardini aðstoðarframkvæmdastjóri Alþjóðaráðs Rauða krossins. Þá var Elín S. Guðmundsdóttir hjúkrunarfræðingur viðstödd, en hún starfaði með Jóni í Kabúl þennan örlagaríka dag fyrir 20 árum.
Anna Stefánsdóttir, formaður Rauða kross Íslands, flutti ávarp og afhenti bekk til minningar um Jón og Robert Mardini flutti kveðjur frá Alþjóðaráði Rauða krossins. Þá gróðursetti fjölskylda Jóns, tré í námunda við bekkinn. Jón Knutsen formaður Akureyrardeildar Rauða krossins, sagði frá bekknum, sem er úr lerki úr Kjarnaskógi og gerður af starfsfólki Skógræktarfélags Eyfirðinga.
Jón Karlsson, hjúkrunarfræðingur var einn af reyndustu sendifulltrúum Rauða krossins þegar hann var veginn við hjúkrunarstörf fyrir utan Kabúl í Afganistan árið 1992. Jón var alinn upp á Dvergsstöðum í Hrafnagilshreppi í Eyjafirði, var stúdent frá Menntaskólanum á Akureyri og útskrifaðist frá Hjúkrunarskóla Íslands árið 1981. Að loknu námi starfaði Jón á Borgarspítalanum og síðar sem sendifulltrúi Rauða krossins í Tælandi, þrisvar sinnum í Afganistan, tvisvar í Pakistan og einu sinni í Súdan og Kenýa. Ekkja Jóns Karlssonar heitir Jenny Hayward. Rúmum tveimur mánuðum áður en Jón var veginn, gengu þau í hjónaband í heimalandi hennar, Englandi, þar sem þau ætluðu að stofna heimili.
Öryggi í hjálparstarfi
Af þessu sama tilefni boðar Rauði kross Íslands til morgunfundar um öryggi í hjálparstarfi, á morgun, mánudaginn 23. apríl kl 08:30-09:45. Aðalræðumaður verður Robert Mardini, aðstoðarframkvæmdastjóri Alþjóðaráðs Rauða krossins (ICRC), sem kemur sérstaklega til landsins til að vera við minningarathöfn um Jón. Einnig ræðir Þórir Guðmundsson, sviðsstjóri hjálparstarfssviðs Rauða krossins, um öryggismál eins og þau snúa að Rauða krossi Íslands. Fundurinn verður haldinn í húsnæði Rauða kross Íslands að Efstaleiti 9. Erindi verða flutt á ensku.