Freyvangsleikhúsið frumsýnir Land míns föður í næstu viku

Freyvangsleikhúsið frumsýnir söngleikinn Lands míns föður í Freyvangi föstudagskvöldið 28. febrúar. …
Freyvangsleikhúsið frumsýnir söngleikinn Lands míns föður í Freyvangi föstudagskvöldið 28. febrúar. Verkefnið er stórt og sýningin mannmörg. Myndir Aðsendar

„Æfingar hafa gengið vel. Það hefur verið mikið að gera en síðustu vikur hafa verið virkilega skemmtilegar og við hlökkum til að setja verkið á svið,“ segir Jóhanna S. Ingólfsdóttir formaður Freyvangsleikhússins, en þar á bæ verður söngleikurinn Land míns föður frumsýnt í lok næstu viku, 28. febrúar. Leikritið er eftir Kjartan Ragnarsson, tónlist er eftir Atla Heimi Sveinsson. Sýnt verður í Freyvangi í Eyjafjarðarsveit og eru sýningar út mars komnar í sölu. Leikstjóri er Ólafur Jens Sigurðsson.

Jóhanna segir að til tals hafi komið fyrir einum átta árum að setja leikverkið upp en þá tókst það ekki. „Þetta er stórt verkefni og mannmargt og við náðum hreinlega ekki nægilega stórum hópi til að gera sett það upp,“ segir hún, en vel gekk að þessu sinni fá til liðs við okkur í 30 til 40 hlutverk leikara sem til þarf svo hægt sé að setja verkið upp. Auk leikara spilar 5 manna hljómsveit á hverri sýningu. Til viðbótar þarf fólk í alls konar verkefni sem til falla í kringum stóra leiksýningu, m.a. þarf leikmuni og búninga svo fátt eitt sé nefnt.

Lýsir stríðsárum i Reykjavík

Lands mín föður er söngleikur um stríðsárin í Reykjavík, hernámið og allt sem því fylgdi. Komið er inn á áhrif hernámsins á líf Íslendinga, einstaklingina og á þjóðlífið í heild. Athyglin beinist að ungu pari, Báru og Sæla og fólkinu í kringum þau, en parið er að hefja sinn búskap þegar stríðið skellur á. Sæli kýs að fara frekar á sjóinn en í Bretavinnu. Bára og móðir hennar opna þvottahús sem þjónar hernum. Bára kynnist breskum liðsforingja og í fjarveru Sæla fella þau hugi saman. Margt gengur á áður en yfir lýkur en leikverkið spannar þau fimm ár sem stríðið stóð yfir.

„Við hlökkum mikið til að bjóða upp á þennan söngleik, það er mjög við hæfi að okkur takist að manna verkið vel einmitt á þessum tímamótum þegar því verður fagnað að 80 ár eru liðin á árinu frá því síðari heimstyrjöldinni lauk,“ segir Jóhanna. Sjálf hefur hún haft í ærið mörg horn að líta undanfarnar vikur, hún leikur stórt hlutverk í sýningunni og sér að auki um búninga. „Það hefur alveg verið mikið að gera en þetta er svo skemmtilegt og gefandi og verður auðveldra fyrir vikið,“ segir hún.

Gengið eins og í ævintýri

Vel hefur gengið að fá leikmuni frá þessu tímabili og eins hefur félaginu áskotnast fatnaður frá stríðsárunum, en það sem á vantar saumar Jóhanna. Það á sem dæmi við um búninga bæði breskra og bandarískra hermanna sem hér voru á þessum tíma. „Það er eiginlega ævintýri líkast hversu vel þetta hefur allt gengið, að safna leikmunum, sauma búninga og annað sem til þar. Við höfum eiginlega bara ekki enn rekist á neina veggi, en það eru margar að leggjast á árar og aðstoða, valinn maður í hverju rúmi ef svo má segja,“ segir hún.

Sérkennilegur tími kringum ástandið

Hún segir verkið byggja á sögulegum staðreyndum, þeir viðburðir sem fjallað er um gerðust í raun og sann en hjónin sjálf sem sjónir beinast að eru tilbúningur höfundar. „Sagan hverfist um skáldaðar persónur en ég er nokkuð viss um að Bára og Sæli hafi verið til á þessum tíma úti í samfélaginu,“ segir Jóhanna og bætir við að leikverkið fangi vel ástandstímann svonefnda sem ríkti í kringum hernámið. „Þetta var sérkennilegur tími og enn eru á meðal okkar Íslendingar sem muna þennan tíma,“ segir hún.

Leikarahópurinn saman stendur af fólki frá 9 ára aldri upp í 75 ára, þannig að aldursbilið er breytt. Sýnt verður öll föstudags- og laugardagskvöld í mars og eru þær sýningar komnar í sölu. Þá verður boðið upp á eina sýningu á fimmtudagskvöldi og eina síðdegis sýningu á sunnudegi.

Nýjast