Búast við góðri helgi í Hlíðarfjalli

Myndin var tekin í Hlíðarfjalli á mánudaginn.    Mynd akureyri.is
Myndin var tekin í Hlíðarfjalli á mánudaginn. Mynd akureyri.is

Aðstæður á skíðasvæðinu í Hlíðarfjalli hafa verið erfiðar síðustu daga og vikur vegna hlýinda en þó hefur tekist að halda brautum opnum og er hvert tækifæri notað til að framleiða meiri snjó.

„Við gátum framleitt alla síðustu helgi og náðum þá að fylla upp í eyður í brautunum þar sem farið var að sjá allverulega í grjót og mela. Þær eru flestar fínar núna en þó er aðeins ein braut opin fyrir ofan Strýtu sem stendur.

Það er misjafnt eftir spám hvoru megin við núllið hitastigið verður næstu daga en við erum vongóð um að geta framleitt meira því þótt það sé hláka í byggð þá er auðvitað mun kaldara til fjalla og við þurfum bara -4 gráður til að geta keyrt snjóbyssurnar í gang. Þær eru allar í viðbragðsstöðu,“ segir Brynjar Helgi Ásgeirsson, forstöðumaður í Hlíðarfjalli.

Að sögn Brynjars var þokkaleg aðsókn um síðustu helgi og ekki langt frá því sem var á sama tíma í fyrra. „Við höfum verið að aðgangsstýra þessu með því að selja 1.000 miða í hvert holl, skiptum helgardögunum upp í fyrri og seinnipart og komum þannig í veg fyrir allan troðning eða að fólk lendi í löngum biðröðum. Ég heyri ekki annað en að fólk sé mjög ánægt með þetta.

Það er greinilega og skiljanlega mjög mikill áhugi á að skoða aðstæður í Fjallinu og um 2.000 manns sem skoða vefmyndavélarnar okkar á hverjum degi. Þar má sjá mjög vel hvernig aðstæður eru og ég skora líka á fólk að fylgjast vel með tilkynningum á heimasíðunni okkar um opnunartíma og þær brautir sem eru opnar.

Ég á ekki von á öðru en að næsta helgi verði góð miðað við aðstæður og reikna með að það verði mikil aðsókn í hollin okkar yfir helgina. Síðan er bara að krossa fingur og vona að við getum keyrt snjóbyssurnar á fullum dampi en það sem gleður mig auðvitað mest er að flestar veðurspár gera ráð fyrir snjókomu þegar líður á næstu viku. Ég er fullviss um að þetta er allt upp á við hjá okkur og mun bæta í snjóalög von bráðar,“ segir Brynjar Helgi Ásgeirsson.

Frá þessu er sagt á akureyri.is

Nýjast