Dagskráin 19. febrúar - 26. febrúar Tbl 7
Heilbrigðisráðherra í heimsókn á SAk
Alma Möller heilbrigðisráðherra, Eydís Ásbjörnsdóttir þingmaður NA-kjördæmis, og Jón Magnús Kristjánsson aðstoðarmaður heilbrigðisráðherra heimsóttu SAk í gæt. Hildigunnur Svavarsdóttir forstjóri SAk og Alma Möller heilbrigðisráðherra segja heimsóknina hafa verið ákaflega ánægjulega.
Alma Möller heilbrigðisráðherra, Eydís Ásbjörnsdóttir, þingmaður NA-kjördæmis, og Jón Magnús Kristjánsson, aðstoðarmaður heilbrigðisráðherra, heimsóttu SAk í dag. Hildigunnur Svavarsdóttir, forstjóri SAk, segir heimsóknina hafa verið ákaflega ánægjulega: „Það er ákaflega verðmætt að fá heilbrigðisráðherra, aðstoðarmann hans og þingmann kjördæmisins í heimsókn. Í þessari heimsókn gafst okkur tækifæri til að ræða saman um fjölmörg mikilvæg mál sem tengjast áskorunum, tækifærum, þróun og framtíðarsýn okkar hér á SAk. Sem dæmi má nefna að við ræddum sérstaklega stöðu fjármála, mönnunar, sérgreinamál lækna, mikilvægi þess að nútímavæða húsnæði og tækjabúnað, auk þess sem rætt var um gæða- og umbótastarf. Gestir okkar heimsóttu skurðstofur, gjörgæslu og geðdeild, þar sem tækifæri gafst til samtals um starfsemina við fulltrúa deildanna.“
Alma Möller heilbrigðisráðherra tók í sama streng: „Það var virkilega ánægjulegt að heimsækja Sjúkrahúsið á Akureyri og ná góðum samtölum við stjórnendur og starfsfólk. Það var sérlega jákvætt að finna þann metnað og lausnarmiðaða hugsun sem starfsfólk SAk býr yfir. Íslenskt heilbrigðiskerfi er í grunninn gott, þökk sé framúrskarandi heilbrigðisstarfsfólki. Þrátt fyrir það er augljóst að ýmislegt þarf að bæta. Ljóst er að á SAk, líkt og annars staðar í heilbrigðiskerfinu, er uppsöfnuð innviðaskuld, sem verður að vinna á með markvissum hætti.
Það eru spennandi tímar framundan á SAk með fyrirhugaðri nýbyggingu, sem kemur til með að hafa mjög jákvæð áhrif og mikilvægt er að sú uppbygging tefjist ekki. Þá er vert að nefna að ég hef sett af stað vinnu við skilgreiningu á SAk sem varasjúkrahúsi landsins, enda nauðsynlegt að hlutverkið sé skýrt, þá ekki síst með tilliti til viðbragðsáætlana, neyðarviðbragða, þjóðaröryggis, sjúkraflutninga, rannsóknarþjónustu og laga um heilbrigðisþjónustu. Skilgreining SAk sem varasjúkrahúss er mikilvæg til að taka ákvarðanir um uppbyggingu sjúkrahússins.”
Heimasíða SAk sagði frá