Mikill munur á skólaþjónustu leik- og grunnskóla eftir landshlutum

Leikskólinn Grænuvellir á Húsavík. Mynd úr safni/epe
Leikskólinn Grænuvellir á Húsavík. Mynd úr safni/epe

Niðurstöður rannsóknarhóps við Kennaradeild Háskólans á Akureyri (HA) um skólaþjónustu sveitarfélaga benda til þess að það sé mikill munur eftir landshlutum á þeirri skólaþjónustu sem leik- og grunnskólar búa við. Það sem mesta athygli vekur þó er sú gagnrýni sem fram kemur á þá klínísku starfshætti sem þróast hafa í skólaþjónustunni, þ.e. hvernig þjónustan beinist að vanda nemandans og „lækningu“ eða „meðferð“ fremur en að skoða það félagslega samhengi sem nemandinn er í, innan sem utan skólans, og breyta aðstæðum til hagsbóta fyrir hann. 

Þau sem standa að rannsókninni telja brýnt að setja þær áskoranir sem sveitarfélögin standa frammi fyrir nú í samhengi við starfshætti skólaþjónustunnar. Slíkar áskoranir eru meðal annars menntun fyrir alla/skóli án aðgreiningar, ræktun tilfinninga og félagsfærni (geðrækt) og fjölmenningarlegt skólastarf/staða barna af erlendum uppruna sem hafa annað móðurmál en íslensku. Um leið þarf að hugsa fyrir hlutverki skólaþjónustunnar í samþættri þjónustu í þágu farsældar barna sem þróa á með innleiðingu laga um slíka þjónustu sem sett voru á síðasta ári. 

Þess er vænst að niðurstöðurnar nýtist sveitarfélögum til að styrkja skólaþjónustu sína með það fyrir augum að efla skóla sem faglegar stofnanir og beini athygli annarra hagsmunaaðila að þessari mikilvægu þjónustu. 

Rannsóknin er styrkt af Vísindasjóði Háskólans á Akureyri og mennta- og menningarmálaráðuneytinu. 

Rannsóknarhópinn skipa: 

Dr. Birna Svanbjörnsdóttir, dósent 

Dr. Hermína Gunnþórsdóttir, prófessor  

Dr. Jórunn Elídóttir, dósent 

Dr. Rúnar Sigþórsson, prófessor emeritus  

Sigríður Margrét Sigurðardóttir, lektor 

Trausti Þorsteinsson, fyrrverandi dósent.

 

Nýjast