Mikill léttir að fjölskyldan er heil á húfi

Ceniza Íris Baldursson/mynd þröstur ernir
Ceniza Íris Baldursson/mynd þröstur ernir

„Það var skelfilegt að heyra þessar fréttir og það fyrsta sem kom upp í hugann var hvort fjölskyldan væri heil á húfi,“ segir Ceniza Íris Baldursson frá Filippseyjum. Ceniza, sem er 62 ára, starfar við hjúkrun í Kristnesi og hefur búið á Akureyri í 25 ár. Fellibylurinn Haiayn hefur valdið miklu tjóni og mannsföllum í landinu undanfarna daga en þúsundir létust í óveðrinu. Tveir bræður og systir Cenizu búa á eyjunni Camotes, sem er í tveggja klukkustunda fjarlægð með bát til borginnar Tacloban sem varð hvað verst úti í fellibylnum. Ceniza segir fjölskylduna vera heila á húfi.

Svaf lítið fyrstu næturnar

„Það var mikill léttir þegar ég náði sambandi við systkini mín og það var í lagi með þau. Ég svaf lítið fyrstu næturnar, ég vaknaði oft á nóttunni til að lesa nýjustu fréttir. Systkini mín búa nánast hlið við hlið og húsin þeirra fóru illa í óveðrinu. Myrkrið er mikið og fólk heldur sig að mestu innandyra.Ég hef reynt að veita fjölskyldunni fjárhagslega aðstoð en þar sem allt rafmagn liggur niðri hefur það gengið illa. Frænka mín sagði mér að hugsanlega kæmist rafmagnið ekki á fyrr en í febrúar á næsta ári. Það finnst mér skelfilegt, sérstaklega þar sem jólin eru á næsta leiti og verður erfitt fyrir mig að njóta jólanna hérna á Íslandi, vitandi af fjölskyldunni við bágar aðstæður þarna úti.“

 

throstur@vikudagur.is

 

Nánar er rætt við hana í prentútgáfu Vikudags

Nýjast