Mikil gróska í nýsköpun fyrir norðan
Dagna 20. og 21. janúar verður boðið upp á Masterclass í frumkvöðlakeppni Gulleggsins. Masterclass er tveggja daga vinnusmiðja ætluð öllum þátttakendum Gulleggsins. Boðið verður upp á opna vinnusmiðju bæði í Háskólanum í Reykjavík og Háskólanum á Akureyri. Til staðar verða sérfræðingar á vegum Gulleggsins ásamt leiðbeinandanum Kjartani Sigurðssyni sem er lektor við Viðskiptadeild Háskólans á Akureyri.
„Svona vinnusmiðjur geta skipt sköpum fyrir nýsköpunarverkefni því það hvernig þú kemur hugmynd á framfæri sem er eitt það mikilvægast í ferlinu. Á þessum viðburði er farið vel í það og þátttakendur fá aðstoð sérfræðinga við að setja upp kynningu,” segir Kjartan Sigurðsson sem hefur starfað mikið í nýsköpunarumhverfinu og vinnur nú að uppbyggingu formlegs vettvangs frumkvöðla- og nýsköpunar innan Háskólans á Akureyri.
Að hanna heiminn
Masterclass verður streymt af Facebook síðu Gulleggsins, en það er gagnlegt fyrir teymi sem taka þátt í Gullegginu að mæta í eigin persónu og fá leiðbeiningar beint í æð. Eins og Kjartan segir, „í hröðum heimi hugmynda og nýrra tækifæra þá þurfa teymi að geta sagt frá verkefnum sínum á skilvirkan og hnitmiðaðan hátt á helst undir einni mínútu. Við sem leiðbeinendur erum til staðar til að benda á vandamál og tækifæri í nýsköpunarferlinu og þjálfa hvaða atriði þurfa að koma fram,” segir Kjartan. „Hér fyrir norðan er nýsköpunarflóran í mikilli grósku og það er hægt að sjá á þeirri vinnu sem hefur farið fram á vegum Norðanáttar, ásamt ótrúlega flottri nýsköpun hjá starfandi fyrirtækjum á svæðinu, sem og uppbyggingu nýrra fyrirtækja sem hafa orðið til vegna þróunar á hráefni og öðrum gæðum sem skapa verðmæti. Nú viljum við fá Gulleggið norður,” segir Kjartan að lokum.
Ertu með hugmynd? Langar þig að hanna heiminn og móta framtíðina? Endilega kíktu á gulleggid.is, skráðu þig til leiks og sýndu hvað í þér býr.