20. nóvember - 27. nóvember - Tbl 47
Metaðsókn á Minjasafnið
„Við erum alveg í skýjunum, þetta er virkilega ánægjulegt. Auðvitað veit maður aldrei hvað framtíðin ber í skauti sér, en ég er nokkuð viss um að þetta sumar fer í sögubækurnar,“ segir Haraldur Þór Egilsson safnstjóri á Minjasafninu á Akureyri en aðsókn að safninu hefur aldrei verið meiri en nú í ár. Alls hafa um 62 þúsund manns heimsótt safnið það sem af er árs og desembermánuður allur eftir. Þetta er mun meiri aðsókn en var á liðnu ári, þegar tæplega 50 þúsund manns litu við á safninu. Það ár var met sett í aðsókn en greinilegt að það stóð ekki lengi.
Minjasafnið rekur í allt 6 safnaeiningar, Minjasafnið sjálft við Aðalstræti og skammt undan er Nonnahús, þá er Davíðshús og Leikfangasafnið einnig undir þeim hatti, Laufás og nýjasta viðbótin er Smámunasafnið í Eyjafjarðarsveit sem bættist við í byrjun sumars. „Söfnin eru mörg og fjölbreytt og höfða til breiðs hóps, „ segir Haraldur.
Aldrei fleiri í Laufási
Það sem einna helst ræður úrslitum um metaðsókn á síðastliðnu sumri er aukinn fjöldi skemmtiferðaskipa sem viðkomu hafði á Akureyri. Farþegar sóttu söfn í auknum mæli sem sést á góðum aðsóknartölum. Farþegar skipanna hafa um árin verið drjúgir þegar kemur að heimsóknum í Gamla bæinn í Laufási og svo var heldur betur einnig nú í sumar. Þar var sett gott aðsóknarmet, um 28 þúsund gestir litu við í Laufási sem er um 10 þúsund gestum fleira en var í fyrrasumar sem þó taldist mjög gott.
Þá segir Haraldur að á söfnunum hafi í auknum mæli verið boðið upp á viðburði sem draga að sér fjölda gesta. Nú í ár hefur Minjasafnið staðið fyrir um 40 viðburðum af ýmsu tagi sem hafa verið vel sóttir. Tónlistarviðburðir laða að sér gesti, upplestur eða fræðsla. „Viðburðir af hvaða tagi sem er skila sér í aukinni aðsókn,“ segir hann. Loks nefnir hann að safnafræðsla sér umfangsmikil hjá Minjasafninu, bæði fyrir grunnskólabörn en einnig er í boði fræðsla fyrir fullorðna.
Margt í boði á aðventunni
Desember var í eina tíð ekki ýkja framarlega í röðinni hvað aðsókn varðar en umskipti hafa orðið þar á eftir að ýmsir aðventu- og jólatengdir viðburðir voru í boð. „Við vorum með alls konar atriði á dagskrá á aðventunni í fyrra og það skilaði sér í góðri aðsókn. Það sama verður uppi á teningnum núna, en um helgina verða opnaðar sýningar og fjöldi viðburða verður á dagskrá fram eftir mánuðinum þannig að við eigum von á að margir líti við hjá okkur og njóti aðdraganda jólanna í kyrrð og ró sem finna má í ríkum mæli hjá okkur,“ segir Haraldur.
Efnt hefur verið til fjölda viðburða á þeim söfnum sem eru undir hatti Minjasafnsins og eru þeir að jafnaði vel sóttir. Myndir Minjasafnið á Akureyri