Merkilegt afmælisár.

Húni ll
Húni ll

Sú var tíð að menn hrintu knerri sínum úr vör og sigldu því til Íslands. En alla tíð á þessu skeri í norðurhöfum urðu menn að treysta á að knörrin okkar vær þannig byggður að þau stæðist óblíðu veður sem hér geisa.  Um sjómannadagshelgina fögnum við einu slíku skipi sem hefur þjónaði eigendum sínum vel, staðist óblíðu veður og borið að landi ótrúlegan afla og skaffaði mörgum fjölskyldum lífsviðurværi.  Skip þetta er Húni II sem var hannaður og smíðaður hér á Akureyri og vitnar um þann hagleik og handverk sem Eyfirskir smiðir réðu yfir.   Gaman er að geta þess að samtals tók það þrjátíu mannár að smíða skipið.

 Smíði Húna.

Smíði Húna hófst snemma árs 1962 og var afhentur á vordögum 1963.  Kaupendur voru þeir Björn  Pálsson alþingismaður og Hákon Magnússon skipstjóri. Tryggvi Gunnarsson skipasmíðameistari teiknaði og stjórnaði smíði Húna en hann var yfirverkstjóri hjá skipasmíðastöð KEA. Ég halla varla á nokkurn mann þótt ég fullyrði að Tryggvi og faðir hans Gunnar Jónsson  hafi átt stærstan þátt í þeirri viðurkenningu sem skipin frá KEA hlutu.

Faðir Tryggva, Gunnar Jónsson, teiknaði og var yfirsmiður við smíði Snæfellsins sem smíðað var 1943. Það eru því áttatíu ár síðan það farsæla skip hélt til veiða. Ekki eru til tölur yfir hversu oft Snæfellið skilaði andvirði sínu til KEA, það hefur verið góð fjárfesting.

 Eina stóra eikarskipið.

Húni ll er smíðaður úr eik og furu og eina stóra tréskipið sem byggt var hér á landi og enn flýtur og með fullkomið haffæri.  Húni var gerður út frá Skagaströnd, síðan frá Höfn og hét lengst af Haukafell, skipinu var lagt og notkun hætt árið 1994.  Allir eigendur skipsins hafa borið mikið lof á það Skipið hafi ætíð reynst vel og farið vel með áhöfn sína.

 Húna bjargað.

En saga Húna var ekki lokið. Hjónin Þorvaldur Hreinn Skaftason og Erna Sigurbjörnsdóttir komu til skjalanna og björguðu skipinu. Ég geri mér grein fyrir því að til verksins þurfti meira en venjulegan kjark og bjartsýni. Þau Þorvaldur og Erna hafa hvoru tveggja.

Húni kemur til Akureyrar.

Það var á vordögum 2005 að Þorvaldur kom siglandi með Húna II til Akureyrar með þá sýn að þar ætti það heima sem vitni um þann hagleik sem þar var í hávegum er skipið var smíðað forðum  Strax við komuna til Akureyrar varð til  nokkur hópur manna sem sýndi því mikinn áhuga á að festa kaup á skipinu til verndunar þess. Þessi umræddi hópur lagði nótt við dag og á endanum varð það úr að með fjárframlögum frá  KEA, Akureyrarbæ og Fjárveitingarnefnd ríkisins að gengið var frá kaupum á skipinu. Þökk sé þeim sem höfðu þessa framsýni og þor að leggja fé til kaupanna.  Ákveðið var  að færa Iðnaðarsafninu á Akureyri skipið að gjöf en rekstur skipsins og öll umhirða er og hefur verið síðan á hendi Hollvinafélags Húna sem svo er nefndur.

Hópur sá sem nú nefnist Hollvinir Húna hafa  allar götur síðan sýnt skipinu einstaka alúð og  viðhaldið því.  Margir hafa á þessum árum komið með og aðstoðað með vinnu og framlögum til rekstursins. 

Í desember 2005 skoðuðu þeir Brynjar Ingi Skaptason skipaverkfræðingur og Þorsteinn Þorsteinsson skipasmiður og skipaskoðunarmaður bátinn og vil ég vitna í niðurlag skýrslu þeirra þar sem þeir segja.
“Í heild má segja að Húni ll. líti vel út. Þetta er vel viðað skip og vandað að allri gerð og hefur staðist álag vel. Okkur sýnist skipið gott til varðveislu”.

 Fögnum saman.

Nú í sumar eru 60 ár síðan að Húni II lagði frá landi og hélt til síldveiða. 

Þessu fögnum við um sjómannadagshelgina m.a. með því að afhjúpa líkan af Húna II eins og hann leit út sumarið 1963. 

Það var að frumkvæði Iðnaðarsafnsins að af smíði þessari  varð  og var Elvar Þór Antonsson hagleiksmaður á Dalvík fenginn til að sjá um smíðina.

Skemmtilegt er að nefna að efni til smíðinnar  í líkanið er af talsverðum hluta út eik og furu úr Húna.  Þá stendur líkanið á bakborðshurð að stýrishúsi Húna en ný var sett í fyrir nokkrum árum.

Stærsta verkefni bátsins eru fræðslusiglingar með nemendur sjötta bekkjar á Akureyri og Eyjafirði.  Verkefnið eru námsferðir í samvinnu við Auðlindardeild HA og kostað af Akureyrarbæ og Samherja.

En það er fleira merkilegt við þetta afmælisár. Nú eru 80 ár síðan að Snæfellið var smíðað hjá Skipasmíðastöð KEA.

Í áraraðir var það aflasælasta skip landsins.  Líkan af því er varðveitt á Iðnaðarsafninu ásamt mörgum líkönum af bátum og skipum.

Þá skal þess einnig getið að 25 ár eru síðan Jón Arnþórsson stofnaði Iðnaðarsafnið á Akureyri.   Þar er sögð á einstakan hátt mjög merk iðnaðarsaga Akureyrar. Á ótrúlegan hátt hafa safnast þar og varðveist munir er tengjast þessari sögu iðnaðar sem svo sannarlega var blómlegur hér fyrrum. Á lóð við Iðnaðarsafnið stendur Watnehúsið sem var Skipasmíðastöð KEA.  Vart mun það sóma sér betur en hjá Iðnaðarsafninu og það endurbyggt, látið hýsa muni er tengjast báta og skipasmíði ásamt útgerðarsögu bæjarins.

Fögnum þessu saman um Sjómannadagshelgina.

Snæfell EA 740  

Nýjast