Menningarhúsið HOF sérstakur boðsgestur á IMEX sýningunni

Menningarhúsið HOF á Akureyri verður sérstakur boðsgestur (vann hið svokallaða Wild Card) á IMEX sýningunni sem er ein stærsta ráðstefnusýning heims og verður haldin í Frankfurt í Þýskalandi 25.-27. maí. Þar koma saman nokkur þúsund ráðstefnuhaldarar og fulltrúar ráðstefnuhúsa, og þeir sem skipuleggja ráðstefnur og hvataferðir víðsvegar um heiminn.  

Ljóst er að hér verður um einstakt tækifæri fyrir ferðaþjónustu á svæðinu til að kynna sig og koma um leið Menningarhúsinu HOFI á kortið í alþjóðlegu samhengi. Einnig verður boðin aðstoð IMEX-sýningarhaldara við að markaðssetja Menningarhúsið HOF fyrir sýninguna. Þeir sem eiga möguleika á að vinna hið svokallaða Wild Card verða að kynna nýjan áfangastað fyrir ráðstefnur eða hvataferðir eða hafa nýverið eða fljótlega opnað nýtt ráðstefnuhús á forvitnilegum slóðum. Þetta kemur fram á vef Akureyrarbæjar.

Nýjast