6. nóvember - 13. nóvember - Tbl 45
Meirihluti skipulagsráðs hafnar ósk eldri borgara
Meirihluti skipulagsráðs Akureyrarbæjar, þrír fulltrúar af fimm höfnuðu á fundi í gær að gera breytingar á deiliskipulagi vegna fjölbýlishúss á lóð númer 2 við Hulduholt á Akureyri. Áhugafólk um byggingu blokkar fyrir eldri borgara hefur augastað á lóðinni og höfðu viðræður hópsins við lóðarhafa gengið vel. Sá hængur var á að núverandi skipulag hentaði hópnum ekki, því samkvæmt því skal þriðja og efsta hæð hússins vera inndreginn. Slíkt fyrirkomulag hentar ekki þeim hugmyndum eldri borgara sem þykir betur fara á því að allar hæðir séu jafn stórar. Eins vildi hópurinn ná fram breytingu á fyrirkomulagi við innganginn, að svalainngangur kæmi í stað þess að farið sé inn í stigagang og þaðan inn í íbúðir.
„Við í bygginganefndinni erum sko ekkert að gefast upp. Þessu máli er ekki lokið,“ skrifar Ásdís Árnadóttir á facebooksíðu hópsins, en hún hefur farið hefur hópnum. Markmiðið var að byggja hagkvæmar íbúðir fyrir 60 ára og eldri og að íbúðirnar yrðu á viðráðanlegu verði.
Vonbrigði að ekki sé orðið við óskum um minniháttar breytingu
Meirihluti skipulagsráðs hafnaði erindinu og segir að í deiliskipulagi sé gert ráð fyrir fjölbýlishúsi með inndreginni efstu hæð á þrjá vegu og vilji meirihlutans sé að því formi verði haldið. Tveir fulltrúar í ráðinu, Ólöf Inga Andrésdóttir L-lista og Sindri Kristjánsson S-lista greiddu atkvæði á móti tillögunni. Þau lýsa yfir vonbrigðum með afstöðu meirihluta skipulagsráðs í málinu og segir að um minniháttar breytingu á deiliskipulagi sé að ráða „til að koma til móts við hóp eldra fólks í bænum sem upplifir skort á hentugu húsnæði fyrir sig. Að okkar mati væri rétt að samþykkja þess ósk um breytingu með það að leiðarljósi að tryggja sem fjölbreyttasta samsetningu íbúa í nýju Holtahverfi norður,“ segir í bókun Ólafar og Sindra.
Erum ekki að gefast upp
„Ég hef eytt miklum kröftum í þetta nauðsynlega mál, að finna hentuga lóð, þokkalega staðsetningu, þar sem byggð yrði blokk fyrir eldra fólk á sanngjörnu verði. Verkið var erfitt, þar sem bæjaryfirvöld sýndu málinu engan áhuga, nema síður væri. Allt var þetta að ganga eftir, þegar skipulagsnefnd, þrír aðilar, með hroka sínum gagnvart eldri borgunum, ákváðu að við fengjum ekki þessa breytingu í gegn. Ég vil taka fram að Búfesti er með tvær blokkir nokkru norðar og þarf ekki að hlýta þessum afarkostum. Við í byggingarnefndinni erum sko ekkert að gefast upp. Þessu máli er ekki lokið,“ segir Ásdís.